140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[14:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan. Ég harma að búið sé að slá framkvæmdir Alcoa fyrir norðan út af borðinu og er það ekki síst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Síðan horfir maður á hvern stjórnarþingmanninn á fætur öðrum koma í pontu og hlakka beinlínis yfir því að því verkefni hafi verið slátrað af ríkisstjórninni. Það vilja allir hér stuðla að fjölbreytni.

Ég segi við þá sem hlakka með eindæmum yfir því að af þessu verkefni verður ekki: Nú er komið að ykkur, ágætu hv. þingmenn, að benda á þetta annað. Þá hljóta menn að vera tilbúnir með svör við því hvernig stuðla á að atvinnuuppbyggingu fyrir norðan. (SER: Það kemur í ljós.) Já, það kemur í ljós, það undrar mig að menn skuli ekki vera betur undirbúnir en þetta.

Ég spyr líka: Getur hæstv. ríkisstjórn krossað í kladdann; eitt verkefni sem við vildum ekki vera með á borðinu? Er þá á dagskrá að slá næsta verkefni út af borðinu? Á að slátra Helguvík algerlega? (Gripið fram í.) Við vitum að á meðan hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að berjast fyrir Helguvíkurverkefninu barðist hæstv. fjármálaráðherra gegn því. Það er nákvæmlega eins með verkefnin fyrir norðan. Ríkisstjórnin hefur barist gegn því verkefni. Það vita allir, það sjá allir. Þess vegna segi ég: Mér finnst það miður, en á móti kemur að við þurfum að halda áfram að byggja upp atvinnu í þessu landi. Þessa dagana er ríkisstjórnin, að mér skilst, að kynna plan B. Ríkisstjórnin hlýtur að vera tilbúin með plan B, C og D í þessu máli, hvernig menn ætla að stuðla að fjölbreytni í störfum. Ekki gerum við það með því að loka sjúkrastofnunum og öðrum opinberum stofnunum úti á landi eins og ætlan ríkisstjórnarinnar er.