140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:06]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sú alvarlega staða er komin upp í kjölfar jarðskjálftanna sem niðurdæling Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiðinni framkallaði á dögunum að fullkomin óvissa ríkir um það hvers það er að bæta tjón á mannvirkjum af völdum skjálftanna, innbúi, húsum og öðru. Viðlagatrygging vísar því frá sér, segist ekki hafa lagaheimild til að bæta tjón sem er komið til út af jarðskjálftum af mannavöldum og tryggingafélag Orkuveitunnar vísar í þessu tilfelli því frá sér og yfir á Viðlagatryggingu. Þessi deila og þessi óvissa var staðfest á fundi bæjarstjóra Hveragerðis og framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar eftir helgina. Þarna vísar hver á annan og íbúar Hveragerðis í þessu tilfelli og auðvitað íbúar landsins alls sem mega eiga von á þessu þurfa að búa við þá óvissu að eignir þeirra og innbú séu ótryggð að því leytinu að fullkomin óvissa ríkir um það hvers er að bæta það.

Þetta er algerlega óviðunandi staða. Hún brýtur gegn þeim grundvallarrétti að hver maður búi við öryggi um tryggingu eigna sinna, mögulegt tjón á heimili, innbúi og öðru, hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar. Þessari óvissu verður að eyða og það hratt. Því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það með hvaða hætti sé hægt að höggva á þennan hnút og eyða þessari óvissu. Jafnframt staðfesti ráðherrann það við mig í símtali í morgun þar sem hann er staddur erlendis að þetta verði að taka fyrir án tafar. Náist ekki að skýra hvers er að bæta tjónið og Viðlagatrygging og tryggingafélagið vísa áfram hvort á annað og íbúarnir þurfa að búa við þessa óþolandi óvissu verður að sjálfsögðu að breyta lögum þannig að annaðhvort sé það staðfest hlutverk Viðlagatryggingar að bæta tjónið þó að það sé tilkomið af jarðskjálfta sem er framkallaður með niðurdælingu eða tryggingafélag viðkomandi orkufyrirtækis, Orkuveitu Reykjavíkur í þessu tilfelli. Þetta verður að gera.

Löggjafinn verður að standa skil á þessu máli og komi ekki fram stjórnarfrumvarp um það verðum við þingmenn að taka okkur til (Forseti hringir.) og breyta lögum, skýra þessa stöðu og eyða óþolandi óvissu í þessu máli.