140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir um tóbaksvarnir. Ég vil taka fram að það eru fulltrúar fjögurra flokka sem flytja þetta mál, þ.e. sú er hér stendur fyrir Framsóknarflokkinn, Þuríður Backman fyrir Vinstri græna, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fyrir Samfylkinguna, Margrét Tryggvadóttir fyrir Hreyfinguna, Álfheiður Ingadóttir fyrir Vinstri græna og Eygló Harðardóttir fyrir Framsóknarflokkinn.

Tillagan hljómar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að vinna 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir þar sem einn liðurinn verði að sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.“

Nokkuð umfangsmikil greinargerð fylgir tillögunni enda er málið mjög viðamikið og tekur á fjölmörgum atriðum hvað varðar tóbaksvarnir.

Tillaga sama efnis var lög fram á síðasta þingi, 139. löggjafarþingi, en þó er búið að breyta greinargerðinni aðeins. Ekki var mælt fyrir tillögunni þá enda kom hún frekar seint fram og þess vegna fór hún hvorki í nefnd né til umsagnar. Það má segja að hún sé að fara í fyrsta skipti í almennilega vinnslu hér í þinginu, enda kemur hún mjög fljótt fram að þessu sinni. Þingið var sett 1. október, og tillagan er komin á dagskrá.

Þegar tillagan var lögð fram síðasta vor hlaut hún gríðarlega mikla athygli og var mjög umdeild, svo að vægt sé til orða tekið. Margir voru mjög ánægðir með hana, en margir líka mjög óánægðir. Hún vakti svo mikla athygli vegna þeirrar hugmyndafræði sem felst í henni um að koma tóbaki inn í apótek og að að 10 árum liðnum verði tóbak afhent gegn lyfseðli. Þetta er mjög róttæk hugmynd og vakti mikla athygli, bæði innan lands og erlendis. Ég fór í óteljandi viðtöl við erlenda fjölmiðla, sumarið fór að hluta til í það og var það mjög skemmtileg reynsla.

Ég ætla að tipla hér á helstu atriðum þessarar tillögu.

Meginmarkmið þessarar aðgerðaáætlunar, og það er gríðarlega mikilvægt að ná meginmarkmiðinu fram, er að koma í veg fyrir að ungmenni ánetjist tóbaki og minnka þannig nýliðun í hópi reykingamanna. Tillagan snýr því sérstaklega að ungmennum en síður að þeim sem nú þegar reykja, hinum eldri. Þó að vissulega snúi ýmis atriði að þeim er meginmarkmiðið að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að reykja.

Aðgerðirnar beinast ekki gegn reykingafólki. Þeir sem reykja og geta ekki eða vilja ekki hætta geta áfram nálgast tóbakið sitt með ákveðnum aðferðum og skilyrðum eftir að tóbak hefur verið tekið úr almennri sölu. Tillagan felur það hins vegar í sér að aðgengi að tóbaki yrði takmarkað í áföngum á þessu tímabili. Sölu yrði hætt í þrepum, svo sem í nálægð við skóla, í matvöruverslunum, í söluturnum, á bensínstöðvum o.s.frv. Þannig yrði tóbak einungis selt í apótekum í lok tímabilsins gegn framvísun tóbaksseðils frá heilbrigðisstarfsmanni.

Flutningsmenn tillögunnar telja mjög mikilvægt að tengja á þann veg heilbrigðisstarfsfólk, sem gæfi út tóbaksseðla, og lyfjafræðinga við tóbaksvarnir á virkan hátt. Hins vegar er opnað á það í greinargerðinni, og það eru nýmæli frá því málið var lagt fram í vor, að gera þetta öðruvísi ef þetta þykir of róttækt, þ.e. að setja tóbakið í apótekin.

Í greinargerðinni segir:

„Þyki slíkt skref of róttækt að mati Alþingis telja flutningsmenn rétt að skoða næstbesta möguleikann, þ.e. þann möguleika að takmarka sölu tóbaks við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) í lok tímabilsins í stað apóteka en benda á að þá tapast hin virka tenging við heilbrigðisþjónustuna.“

Ýmis önnur mótrök eru gegn því að selja tóbakið í ÁTVR, meðal annars hefur verið bent á að ekki sé æskilegt að þeir sem reykja þurfi að vera útsettir fyrir áfengi þegar þeir kaupa tóbak í ÁTVR. Við sem flytjum þetta mál teljum að þrátt fyrir þessi mótrök mundi mikill sigur vinnast í tóbaksvörnum ef sala yrði takmörkuð við ÁTVR þótt allra best væri að takmarka tóbakssöluna við apótek með tengingu við heilbrigðisþjónustuna. Það væri vissulega mikill sigur að koma tóbakinu úr almennri sölu og inn í ÁTVR þó að best væri að setja þessa vöru í apótekin að okkar mati. Flutningsmenn telja því eðlilegt að Alþingi skoði báða þessa möguleika, þ.e. á að takmarka söluna við ÁTVR eða við apótek í lok tímabilsins.

Ef ákveðið yrði að fara með sölu tóbaks alfarið í ÁTVR er eðlilegt að skoða hvort lyfjafræðingar sjái um afhendingu tóbaksins vegna sérþekkingar þeirra á skaðsemi og eituráhrifum tóbaks og til að veita ráðgjöf.

Aðgerðaáætlunin miðar við það að ná meiri árangri í baráttunni gegn tóbaksnotkun en við höfum náð. Þó má segja að nú þegar höfum við náð frekar góðum árangri. Um 15% Íslendinga reykja og er það lægra hlutfall en gengur og gerist í flestum Evrópuríkjum þannig að nú þegar hefur okkur tekist vel til. Ef þessi áætlun nær fram að ganga ætti það að heyra til undantekninga að Íslendingar neyti tóbaks að 10 árum liðnum.

Við sem flytjum þetta mál sættum okkur ekki við að tóbakssjúkdómar dragi um 300 Íslendinga til dauða á ári, þar af 20–30 vegna óbeinna reykinga. Tillagan er því lögð fram til að fækka markvisst dauðsföllum og auka lífsgæði og verja ungmenni.

Því miður er talsverðri markaðssetningu enn beint að ungmennum — tóbaksmarkaðssetningu — við teljum að hana þurfi að stöðva. Þótt við höfum náð miklum árangri í tóbaksvörnum, 15% þjóðarinnar reykja, þá reykja því miður 20% ungmenna um tvítugt. Við teljum það algjörlega óásættanlegt. Það er óásættanlegt að um 700 ungmenni skuli ánetjast tóbaki á Íslandi á ári. Þá má ætla að um helmingur þeirra ungmenna falli frá fyrir aldur fram vegna reykinga. Við bendum líka á að lítið hefur verið fjallað um rétt barna og fóstra til reyklauss og tóbakslauss umhverfis. Þann rétt verður samfélagið að tryggja, en um 10% þungaðra kvenna sem nota tóbak ná ekki að hætta notkun þess þrátt fyrir þungunina og stefna heilsu barna sinna með því í talsverða hættu. Það eitt ætti að vera nægjanleg rök til að taka tóbak úr almennri sölu.

Við bendum líka á að reykingar valda miklu fjárhagslegu tjóni í samfélaginu. Það nemur tugum milljarða af skattfé borgaranna. Við hefðum frekar viljað sjá þá peninga nýtta í betri samfélagsleg verkefni.

Við viljum draga skipulega úr aðgengi að tóbaki. Við viljum líka huga að verðlagningu tóbaks. Við viljum koma í veg fyrir notkun tóbaks þar sem það getur skaðað aðra. Við viljum stöðva kynningu á tóbaki og auka aðstoð við þá reykingamenn sem vilja hætta. Við teljum að styrkja þurfi fræðslu- og eftirlitsaðila í störfum sínum og við teljum líka rétt að tóbak verði skilgreint sem ávana- og fíkniefni. Það verði líka skilgreint sem krabbameinsvaldandi eiturefni og hættulegt efni og lög sem eiga við um slík efni eiga líka að eiga við um tóbak.

Ég vil taka það fram hér, virðulegur forseti, að þessi tillaga dettur ekki úr lausu lofti hingað á borð þingmanna, heldur var við vinnslu hennar leitað ráða hjá tóbaksvarnahópi Læknafélags Íslands, en þann hóp skipa læknarnir Kristján G. Guðmundsson, Sigríður Ólína Haraldsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir og Þórarinn Guðnason. Þessi hópur hjá Læknafélaginu, tóbaksvarnahópur Læknafélagsins, hefur það hlutverk að vinna með stjórnvöldum að næstu skrefum í tóbaksvörnum á Íslandi og byggir starf sitt á stefnu- og aðgerðaáætlun Læknafélags Íslands í tóbaksvörnum. Það er því mjög mikil fagleg þekking á bak við þessa tillögu sem hefur þá komið í gegnum þennan hóp inn í þetta plagg.

Stefna og aðgerðaáætlun Læknafélagsins í þessu máli byggist á tillögum sem voru samþykktar á tóbaksvarnaþingi árið 2009, en það þing sóttu um 100 manns úr fjölmörgum geirum samfélagsins, bæði frá hinu opinbera og frá grasrótarsamtökum. Ég vil líka taka það fram að tóbaksvarnaþing sem er nýafstaðið samþykkti ályktun sem fól í sér að þingið styður við þá tillögu sem hér er verið að mæla fyrir. Tóbaksvarnaþing 2011 skorar á yfirvöld að samþykkja þá ályktun sem hér er mælt fyrir.

Við vinnslu þessarar þingsályktunartillögu var líka haldinn fundur með Lyfjafræðingafélagi Íslands. Sá fundur varð meðal annars til þess að það var tekið út úr málinu að skilgreina tóbak sem lyf, enda held ég að það hefði fallið um sjálft sig, við hefðum aldrei náð að skilgreina það sem lyf af því tóbak er svo hættulegt að í dag dytti engum í hug að skrá það sem vöru á markaði yfirleitt og það mundi ekki nást að flokka það sem lyf vegna gríðarlegra neikvæðra aukaverkana þess.

Flutningsmenn vilja hvetja Alþingi til að skoða þessa tillögu mjög vel og alla þá þætti sem í henni felast og samþykkja hið fyrsta þær aðgerðir sem felast í henni sem samstaða næst um. Það er hægt að samþykkja mjög mikið sem tillagan gengur út á. Sumt er umdeilt og þarf kannski meiri skoðunar við, en annað væri hægt að samþykkja mjög hratt. Hvert ár skiptir máli í því sambandi.

Í tillögunni eru tilgreindir sjö meginþættir áætlunarinnar sem við viljum að velferðarráðherra setji í gang. Í fyrsta lagi fækka sölustöðum tóbaks, minnka þannig aðgengi og stemma stigu við nýjum neysluformum á tóbaki. Ég lýsti hér áður hvernig á að trappa niður hvar tóbak er selt, það á að enda í apótekum eða í ÁTVR.

Við segjum líka að við viljum að sala á íslensku neftóbaki verði óheimil. Þetta er auðvitað umdeilt atriði. En það er nú þannig, virðulegur forseti, að neftóbak er notað á annan hátt en áður, það er sett á vitlausan stað ef svo má að orði komast, það er sett í munn í staðinn fyrir að setja það í nef. Nú er svo komið að um 20% drengja á Íslandi, ungra drengja, neyta neftóbaks á vitlausum stað, þ.e. setja það í munn. Þetta teljum við að gangi ekki upp. Við erum þar reyndar líka bundin af rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem við skuldbundum okkur til að hindra ný neysluform tóbaks, þetta er nýtt neysluform að setja neftóbak í munn. Við viljum því að bannað verði að selja neftóbak á Íslandi þar sem ungt fólk er farið að nota það í munn, það er skaðlegt.

Við viljum líka að reykingar verði afnumdar á almannafæri. Það eru fá ár síðan það þótti í lagi að reykja í kvikmyndahúsum, flugvélum, rútum o.s.frv., en það þykir fráleitt í dag. Í öðru lagi, eða í lið 2, er einnig talað um að við viljum ekki að reykt verði á lóðum opinberra bygginga, á gangstéttum, í almenningsgörðum, á baðströndum. Við nefnum að nú þegar er bannað að reykja í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, eða mælst til þess að fólk reyki ekki þar. Það verði bannað að reykja undir stýri líkt og bannað er að nota farsíma undir stýri. Óheimilt verði að reykja í bílum þar sem börn eru undir 18 ára. Óheimilt verði að reykja á svölum fjölbýlishúsa, nema húsfélög leyfi slíkt sérstaklega, þarna er aðeins verið að milda hlutina frá fyrra máli. Þetta er umdeilt. Margir segja: Við viljum ekki reykja yfir börnunum okkar, við förum út á svalir og reykjum þar. Aðrir segja: Ég vil geta sett barnið mitt í barnavagn út á svalir og vil að barnið sofi úti, ég get það ekki af því fólkið á neðri hæðinni reykir og reykurinn fer beint upp og inn í barnavagninn. Þetta þurfa húsfélög þá að skoða.

Við viljum líka að þeir sem búa í fjölbýli beri ábyrgð á því að reykurinn berist ekki í íbúðir annarra eða í almennt rými. Ég vil taka það sérstaklega fram, af því að hæstv. forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, er sérstakur áhugamaður um það ákvæði að fólk í fjölbýli beri ábyrgð á því að reykurinn frá því berist ekki í næstu íbúðir eða í almennt rými. Þetta er mjög mikilvægt. Við leggjum líka til að reykingar verði óheimilar í nærveru þungaðra kvenna. Við viljum að auglýsingar verði fjarlægðar. Alþjóðlegt samstarf verði um að banna auglýsingar á tóbaki og settar verði sérstakar viðvaranir sem þeki 80% af sígarettupökkunum með heilsuviðvörunum, og að þetta verði ekki aðlaðandi umbúðir.

Ég vil að lokum, þar sem ég næ nú ekki að fara mjög náið út í þetta allt á þessum stutta tíma, taka fram að efnahagslegar aðgerðir eru gríðarlega mikilvægar. Núna er sígarettupakkinn seldur á um það bil 1 þús. kr. Ef hann ætti að standa undir þeim samfélagslega skaða sem hann veldur, tóbaksreykurinn, ætti að selja pakkann á 3 þús. kr. Samfélagið tapar líklegast 27 milljörðum á ári vegna afleiðinga tóbaks. Þetta er að okkar mati gríðarlega há tala og þess vegna viljum við gera allt sem í okkar valdi til að minnka neyslu tóbaks.

Ég vil að lokum ítreka, virðulegi forseti, að aðalatriðið er að verja börn og ungmenni. Það er ekki of erfitt fyrir þá sem reykja að fara í apótekin og ná sér í sígarettur í framtíðinni þegar þeir vita að með því eru þeir að verja börn og ungmenni, koma í veg fyrir að börn og ungmenni byrji að reykja.