140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki að gera lítið úr því starfi sem hefur verið unnið í tóbaksvörnum hingað til og hef tekið virkan þátt í því sjálf, eins og ég held að hv. þingmaður viti. Það starf hefur skilað árangri, en það þarf að gera margt annað en bara uppfræða. Það þarf líka boð og bönn. Menn hafa náð samstöðu um boð og bönn í þessu eins og í svo mörgu öðru. Hér er sagt: Boð og bönn virka ekki. Jú, boð og bönn hafa virkað ágætlega en þau útrýma ekki öllu. Það er alveg rétt. Það er fíkniefnaneysla á Íslandi þótt það sé bannað að neyta fíkniefna. Vill hv. þingmaður að það sé leyfilegt að neyta fíkniefna á Íslandi? Er það í spilunum? Ég átti mig ekki alveg á þessum stóru yfirlýsingum. Boð og bönn geta algerlega átt rétt á sér. Það er t.d. bannað að keyra bíl nema vera í bílbelti. Það bann á rétt á sér og er samstaða um það.

Varðandi siðfræðina mundi heilbrigðisstarfsmaðurinn að sjálfsögðu bjóða þeim sem reykir upp á meðferð, fræðslu og ráðgjöf og ef hann mundi ekki þiggja það þá fengi sá hinn sami tóbaksseðil af því að það er ekki verið að banna tóbak með þessari tillögu. Reyndar hefur eitt land bannað tóbak, ég held að það sé Bútan, en það er ekki verið að leggja það til hér. Hins vegar er verið að koma sölunni nær heilbrigðiskerfinu þannig að fólk geti fengið hjálp ef það vill. Ef það vill hana ekki fengi það tóbaksseðil og færi út í apótek og fengi sígaretturnar þar. Að mínu mati er það algerlega réttlætanlegt af því að við værum með því að verja börn og ungmenni. Það væri ekki svo mikið mál að fá þennan tóbaksseðil og fara út í apótek. Ef mönnum þykir þetta allt of róttækt, sem ég veit að sumum þykir, ekki mér en sumum, þá er sá möguleiki opinn að færa tóbak til ÁTVR. Það getur verið áhugavert að heyra hvað hv. þingmaður segir um þá aðferð.