140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[10:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður að horfa á staðreyndirnar. Nú þegar er búið að afgreiða mál um 2 þús. lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Miðað við markmiðin sem voru sett er verkefnið þar af leiðandi á áætlun. Það mun taka ákveðinn tíma að ljúka því. Það er þrýst mjög harkalega á að það verði gert eins hratt og mögulegt er.

Hvað varðar síðan samþjöppun á eignarhaldi og áhrif þessara erfiðleika í efnahagslífinu á eignarhald í framhaldinu er ég alveg sammála hv. þingmanni að það skiptir miklu máli að greina það. Ég bendi á að Samkeppniseftirlitið hefur sett fram hugmyndir um að leggja í sérstaka úttekt á því. Ég styð það eindregið. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir fjárlaganefnd að taka til jákvæðrar athugunar nú við meðferð fjárlagafrumvarpsins sérstakar heimildir til Samkeppniseftirlitsins til að ráðast í slíka úttekt. Ég held að það sé mjög mikilvægt. En Samkeppniseftirlitið hefur unnið mjög ákveðið að því að tryggja að skuldsetningin sé ekki úr hófi (Forseti hringir.) og að ekki myndist nýjar blokkir í eignarhaldi því að við erum nógu brennd af kolkröbbum fyrri tíma til að vilja ekki endurvekja slíkt viðskiptaumhverfi.