140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir nokkrum vikum greiddum við hér í þessum sal atkvæði um það hvort sjóðfélagarnir ættu lífeyrissjóðina eða kysu þeim stjórn og ég man ekki til þess að neinn einasti þingmaður Hreyfingarinnar hafi greitt því atkvæði. Ég held meira að segja að einn hafi verið á móti og sumir forðuðu sér út úr salnum af því þeir voru að passa hagsmunina. [Hlátur í þingsal.] Að sjálfsögðu. Af hverju greiddu þeir ekki atkvæði með þessu?

Hv. þingmaður talar um að lífeyrissjóðirnir hafi fengið 150 milljarða sem þeir reiknuðu ekki með í verðbætur. Lífeyrissjóðirnir greiða verðtryggðan lífeyri, ég hélt að hv. þingmaður vissi það. Þeir borguðu á síðasta ári 70 milljarða í lífeyri til lífeyrisþega og inni í því er verðbólga, því að lífeyririnn er verðtryggður sem betur fyrir lífeyrisþegana. Þannig að svona tal, að þeir hafi fengið eitthvað sem þeir reiknuðu ekki með — það er reiknað með þessu af því lífeyririnn er verðtryggður og eignirnar eiga þá að vera verðtryggðar á móti ef mögulegt er. Þannig að þetta er ekkert óvænt, og menn ætla sér að taka þetta burt.

Hv. þingmaður talar þannig að taka bara þessa 150 milljarða af þeim. Það mundi þýða að það yrði þá að færa allan lífeyri til þess sem hann var fyrir hrun, taka af lífeyrinum 20–30% verðbætur sem lífeyrisþegarnir hafa fengið. Það getur vel verið að í huga hv. þingmanns séu lífeyrisþegar breiðu bökin í þjóðfélaginu. Ég lít ekki þannig á það.