140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er líka annar þáttur sem ekki hefur verið talað um, það eru prófkjörin hjá flokkum sem leggja mikla áherslu á lýðræði eins og flokkur minn sem er með mjög stóran prófkjörshóp. Ég þarf að höfða til 10–20 þúsund kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og slíkt prófkjör kostar alltaf óhjákvæmilega mikið og ég hef lagt út fyrir því úr eigin vasa í gegnum tíðina. Það kemur náttúrlega til frádráttar þeim launum sem menn hafa og ég er iðulega launalaus eftir kosningar kannski frá maí fram að jólum.

Svo gagnrýnir fólk að menn fái styrki, þannig að mér finnst þessi þjóð ekki vera alveg sjálfri sér samkvæm. Vilji hún lýðræði þarf það að kosta, þá þarf að hafa samband við fólk og það fólk sem vill fara í framboð þarf einhvern veginn að kynna sig. Það hefur ekki þann stól hér sem ég hef. Það er ákveðinn vandi, það er ákveðin mótsögn sem menn lenda í og ég vildi gjarnan sjá heiðarlegri og málefnalegri umræðu um annars vegar prófkjörin, sem ég tel vera mjög nauðsynleg ef við viljum hafa grunnlýðræði, og hins vegar laun þingmanna. Eftir því sem þau eru hærri þeim mun meiri samkeppni verður væntanlega um starfið af því að þetta eru kosningar, prófkjör og annað slíkt. Ég vildi því gjarnan sjá meiri umræðu um þessi mál.