140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

lagaskrifstofa Alþingis.

57. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að geta þess að við þingmenn erum kannski örlítið áttavilltir enn þá í hinni nýju nefndaskipan. Frumvarpið sem ég flutti áðan var til meðferðar í allsherjarnefnd á síðasta þingi þannig að ég taldi að það færi þangað og það frumvarp sem ég mæli fyrir núna fer líka inn í nýja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þetta frumvarp, frumvarp til laga um lagaskrifstofu Alþingis, var einnig rætt á síðasta þingi eins og frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslur en varð ekki útrætt. Flutningsmenn með mér á málinu eru Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Þór Saari.

Þau málalok urðu á síðasta þingi að hv. allsherjarnefnd fékk málið til umfjöllunar. Það fékkst rætt í 1. umr. í þinginu, fór svo til nefndar og málalok urðu þau að frumvarpið var sent til þingskapanefndar sem var falið það hlutverk, greinilega, að svæfa málið í stað þess að allsherjarnefnd gerði það. Frumvarpið sem er svo nauðsynlegt núna virðist ekki henta þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu.

Ég ætla að byrja á að minna á það að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var margklifað á því að styrkja þyrfti Alþingi bæði faglega og fjárhagslega. Löggjafinn hér á landi er ekki nógu öflugur. Sem dæmi má nefna að árið 1994 þegar EES-samningurinn var lögleiddur var Alþingi hvorki styrkt faglega né fjárhagslega þrátt fyrir það að hingað væru að koma óteljandi reglugerðir og Evrópuréttur, sem var nýr af nálinni, en ekkert var gert til að styrkja innviði þingsins.

Ég hef stundum sagt það opinberlega og í einkasamtölum að ég telji að hlutur bankahrunsins liggi hér í þingsölum vegna þess að lagasetning frá Alþingi er á engan hátt fullnægjandi. Ef við berum okkur saman við nágrannaríkin, Norðurlöndin, er það svo að hér eru miklir meinbugir á lögum sem umboðsmaður Alþingis hefur bent á í skýrslum sínum. Dómstólarnir eru að sligast. Það er vegna þess lagasetningin er ekki nægilega góð og því verða deilumál svo tíð og þau eru að drekkja dómstólunum.

Samkvæmt almennum reglum um lagasetningu skulu lög vera skýr og öllum aðgengileg, einföld og auðskiljanleg, og fáar eða engar réttarspurningar skildar eftir í lögum. Það gefur augaleið að séu frumvörp sem verða að lögum þannig uppbyggð minnkar álagið bæði á umboðsmann Alþingis og dómstóla.

Þegar þetta mál kom hér fram á sínum tíma fann hæstv. forsætisráðherra því allt til foráttu, sem er afar einkennilegt í ljósi þess að þá var rannsóknarskýrslan komin út. Þróunin hefur orðið sú í þinginu eftir að þetta mál kom fyrst fram að sífellt er verið að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvalds, nú síðast í stjórnarráðsmálinu þegar átti að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið, að færa beinlínis völd frá þinginu til ráðuneytanna. Þetta er mjög alvarlegur hlutur þegar framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, fer fram með þeim hætti að færa valdheimildir frá löggjafanum til sjálfs sín. Ég spyr þá á ný: Hvar er þrígreining ríkisvaldsins?

Svona vinnubrögð ganga ekki, enda voru viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þessu frumvarpi á sínum tíma þau að stofna lagaskrifstofu í Stjórnarráðinu — í forsætisráðuneytinu, sem átti að hafa það hlutverk að lesa frumvörp sem kæmu frá ríkisstjórninni inn í þingið til að þau uppfylltu þau skilyrði að standast stjórnarskrá og önnur lög og almenna lagasetningu og yfir höfuð að vera þingtæk.

Frú forseti. Eftir að lagaskrifstofan var stofnuð í Stjórnarráðinu hefur ekki orðið nein breyting á þeim lagafrumvörpum sem koma frá ríkisstjórninni, mál eftir mál er handónýtt. Ég nefni sem dæmi fiskveiðistjórnarmálin tvö sem áttu einungis heima í pappírstætaranum. Við vorum að ræða laun þingmanna rétt áðan. Það kom fram frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra sem beinlínis fór gegn stjórnarskránni varðandi það að Alþingi ætti að hlutast til um að lækka laun dómara, sem eiga að vera óháðir Alþingi í störfum sínum. Mál eftir mál hefur komið fyrir þingið sem beinlínis er ekki þingtækt.

Þetta frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis gerir það að verkum, verði það að lögum, að allt umhverfið hér breytist, því að með frumvarpinu er lagt til að þar verði síuð út þau mál sem ekki eru þingtæk þannig að þingmenn sjálfir þurfi ekki að eyða tíma hér í ræðustól og þar með ræðutíma sínum í lagatæknilegar spurningar sem jafnvel aldrei fást svör við.

Sú hugmynd að hafa lagaskrifstofu er sótt til Norðurlandanna, enda er lagasetning á Norðurlöndunum einstaklega góð. Sem dæmi má nefna að einungis einu sinni hafa verið sett lög í Danmörku sem stríddu gegn stjórnarskrá, síðan hafa þessi mál verið í lagi þar. Hér á landi koma sífellt fyrir dómstóla mál sem stríða gegn stjórnarskrá vegna þess að löggjafinn hefur einfaldlega ekki burði til að leggja mat á hvort svo sé eða ekki. Þetta mál er því brýnt og ég leyfi mér að segja að það sé jafnvel með brýnni málum þingsins að styrkja löggjafann.

Nú er verið að breyta nefndum þingsins, þeim hefur verið fækkað úr tólf í átta. Það er búið að auka mjög við þá málaflokka sem eru í þessum nefndum. Sem dæmi má nefna að búið er að sameina allsherjarnefnd og menntamálanefnd. Hvergi sér þess stað að verið sé að auka aðstoðina t.d. við stjórnarandstöðuna í þingnefndum. Þegar nefndirnar tútna svo út sem raun ber vitni og hafandi einn ritara gefur það augaleið að viðkomandi ritari hefur ekki burði til að sinna bæði stjórn og stjórnarandstöðu þar sem málin eru svo stór að umfangi og fundardagar eru fleiri.

Ég spurði að því sérstaklega þegar þingmenn fengu kynningu á þessum nýju nefndum hvort menn hefðu í hyggju að styrkja nefndasviðið, að bæta við lögfræðingateymi, og svarið var nei. Ég er því ansi hrædd um að þessar breytingar á þingsköpum geti leitt til þess að lagasetningin verði enn verri og sérstaklega í ljósi þess, frú forseti, að hér eru ekki allir þingmenn lögfræðingar, sem betur fer. Þannig á það heldur ekki að vera því að þingið á að endurspegla þjóðina. Ef málin væru í lagi gætu þingmenn allir verið að ræða einungis efnislega um frumvörpin en ekki þær lagatæknilegu flækjur sem við sem sitjum á þingi og erum lögfræðimenntuð þurfum sífellt að vera að benda á og leita eftir svörum og fáum lítil svör. Þá er ég sérstaklega að vísa til frumvarpa ríkisstjórnarinnar sem ættu samkvæmt öllu að vera í lagi. Það eru lögfræðiteymi í ráðuneytunum. Rekstrarkostnaður Stjórnarráðsins er gríðarlegur, það er sífellt verið að bæta við starfsfólki þar. Nýlega var opnað á heimild til þess að ráðherrar mættu ráða sér 23 aðstoðarmenn. Frú forseti. Hvar eru faglegheitin? Það er nánast alveg sama hvaða frumvarp kemur inn í þingið, það þarf að senda það til baka eða breyta því mjög vegna lagatæknilegra ágalla. Ég veit ekki hvernig hægt er að bjarga stjórnsýslunni hér á landi fyrst fjölmenn ráðuneyti með þá sérfræðiþekkingu sem maður hefði haldið að væri þar inni geta ekki komið frá sér lagafrumvarpi án þess að það brjóti kannski í bág við stjórnarskrá eða önnur lög.

En þá að efni frumvarpsins. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stofna skal lagaskrifstofu Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Starfsmenn lagaskrifstofu skulu vera alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis og Stjórnarráðsins til ráðgjafar um undirbúning löggjafar. Skal einkum líta til þess að frumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er bundið af og að frumvörp séu lagatæknilega rétt. Lagaskrifstofa skal einnig ganga úr skugga um að frumvörp standist þjóðréttarlegar skuldbindingar og séu í samræmi við gildandi lög, að þau séu nákvæm, skýr og auðskiljanleg og gjaldtökuheimildir séu skýrar.“

2. gr. hljóðar svo:

„Á lagaskrifstofu skulu starfa fimm manns og skulu allir vera lögfræðimenntaðir og að minnsta kosti tveir skulu vera prófessorar í lögum. Forseti Alþingis skipar einn lagaprófessor að tillögu forsætisnefndar Alþingis og skal hann jafnframt vera í forsvari lagaskrifstofu, tveir menn skulu skipaðir að tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og skal annar þeirra vera prófessor í lögum og tveir skulu skipaðir að tillögu Lögmannafélags Íslands. Skipunartími skal vera fimm ár og kjararáð skal úrskurða um starfskjör.“

3. gr. hljóðar svo:

„Lagaskrifstofa setur sér sjálf starfsreglur og kveður nánar á um hlutverk sitt, sbr. 1. gr., og skal forsætisnefnd staðfesta þær.“

4. gr. hljóðar svo:

„Lagaskrifstofa er sjálfstæð stofnun og skal gæta jafnræðis við undirbúning mála og aðstoð við alþingismenn, sbr. 1. gr.“

5. gr. hljóðar svo:

„Starfsemi lagaskrifstofu skal tryggð með framlögum úr ríkissjóði í fjárlögum hvers árs.

6. gr. hljóðar svo.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og ég fór yfir í byrjun var þetta frumvarp flutt bæði á 138. og 139. löggjafarþingi en var svæft. Ég vona að það fáist nú í gegn og verði útrætt því að það er lífsnauðsynlegt að við endurreisum traust á Alþingi og Alþingi fari að setja lög sem halda fyrir dómstólum og minnka það álag sem á þeim er.

Það er gaman að minnast þess að á 116. löggjafarþingi lagði Páll Pétursson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fram þingsályktunartillögu um að sett yrði á stofn lagaráð sem ætti að vera til ráðgjafar um lögfræðileg álitaefni, einkum hvað varðaði stjórnarskrána o.fl. Málið varð ekki útrætt þá heldur. En það er gaman að minnast þess að þingmaður Framsóknarflokksins hafi þá þegar verið farinn að huga að því að stofna lagaskrifstofu eða lagaráð eins og lagt var til í tillögunni. Það sýnir þá framsýni og að það hafi verið knýjandi þörf á að hafa svona stofnun við Alþingi en fékkst ekki útrætt þá.

Svo gerist það að svona mál er lagt fram á 126. löggjafarþingi af þingmönnum úr þáverandi Alþýðuflokki. Það er gaman að segja frá því, miðað við hvernig núverandi hæstv. forsætisráðherra brást við þessu frumvarpi núna, að þá var hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir óbreyttur þingmaður og var alveg hreint fylgjandi því að þetta væri brýnasta úrlausnarefnið sem lægi fyrir Alþingi á því þingi og það yrði að koma á fót svona lagaráði sem Páll Pétursson hafði flutt tillögu um á 116. þingi.

Það breytist margt þegar fólk fer í ríkisstjórn og þetta er ekki eina málið, við getum líka talað um verðtrygginguna og endurreisn um fjármagnseigendur en ekki heimilin þannig að það er ýmislegt sem breytist. En viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þessu voru þau, eins og ég sagði áðan, að stofna sína eigin lagaskrifstofu hjá framkvæmdarvaldinu í Stjórnarráðinu, og meira að segja í forsætisráðuneytinu þar sem hún er sjálf til húsa.

Ég ætla ekki að lesa neitt upp úr greinargerðinni, ég hef stiklað hér á stóru um þetta. Það er eins og ég segi orðið afar mikilvægt að koma svona skrifstofu á fót við þingið og lít ég þar til reynslu Norðurlandanna. Æskilegast væri að fá ráðgjöf frá þjóðþingunum þar, frá Noregi og Danmörku, um það hvernig best væri að haga málum og hvernig svona skrifstofa ætti að vera uppbyggð. Slíkar skrifstofur eru hjá þeim og hafa verið starfandi í árafjöld þannig að við eigum ekki að vera að finna upp hjólið. Líkan að þessu er til þarna úti og að sjálfsögðu eigum við að sækja okkur þekkingu þangað og reynslu til að þetta heppnist sem best. Svo virðist sem það eina sem þurfi til sé að ríkisstjórnin fari frá. Ég kem til með að berjast áfram fyrir þessu máli, að það verði á dagskrá þingsins og verði útrætt og lagaskrifstofu verði komið á. Það er fyrir löngu orðið algjörlega tímabært að reisa Alþingi upp á það plan að þar séu lögð fram frumvörp sem standast stjórnarskrá og að þau lög sem þar eru samþykkt séu unnin á faglegan hátt.

Það telja örugglega margir að í þessu felist mikil gagnrýni, bæði á stjórn þingsins, forsætisnefnd og nefndasvið. Svo er ekki, ég er raunsæismanneskja. Ég hef sett mér það markmið að berjast gegn þeirri meðvirkni sem hefur átt sér stað í samfélaginu frá árinu 2000. Þetta er eitt af því. Það er alltaf talið að gagnrýnisraddir megi ekki heyrast vegna þess að þá sé verið að móðga einhvern eða tala eitthvað niður. Frú forseti. Þetta frumvarp er lagt fram til uppbyggingar, til að bæta samfélag okkar, til að bæta lagasetningu, það er einungis sett fram í þeim tilgangi. Við verðum að taka höndum saman og reyna að gera það sem við getum til að bæta samfélagið.