140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil ræða aðeins atvinnumál í ljósi fjöldauppsagna sem því miður halda áfram. 33 var sagt upp hjá verktakafyrirtæki á Vestfjörðum í þessari viku. Þeirra síðasta verk var Suðurstrandarvegur. Annar mjög öflugur verktaki sem þar hefur starfað stendur nú í fyrsta sinn í ævisögu sinni frammi fyrir verkþurrð. Í viðræðum mínum við ýmsa aðra jarðverktaka og verktaka í mannvirkjagerð kemur fram það sama. Það hafa engin útboð komið fram, hvorki opinber né, það sem enn verra er, í einkageiranum. Verkum er að ljúka og það er ekkert fram undan, frú forseti.

Á hagfræðingaráðstefnu í Hörpu kom meðal annars fram að við hefðum þurft að fara aðra leið til að koma í veg fyrir landflótta og þetta mikla atvinnuleysi, fara hina leiðina sem við framsóknarmenn höfum lagt fram undir nafninu plan B, þ.e. leið atvinnuuppbyggingar. Við höfum jafnframt lagt fram tillögur í efnahagsmálum og sérstaka þingsályktunartillögu um sókn í atvinnumálum.

Ég kem hérna upp, frú forseti, til að ræða við stjórnarþingmenn um stefnu ríkisstjórnarinnar. Eins og fram kom áðan var á landsfundi Vinstri grænna sem haldinn var um helgina samþykkt að ef einhver væri með ágreining um orkunýtingarverkefni innan rammaáætlunar ætti að flytja það verkefni úr nýtingarflokki í biðflokk. Það er sem sagt, að því er virðist, stefna þess flokks að það verði áfram stopp og enginn árangur, það verði áfram vaxandi atvinnuleysi og landflótti. Er það stefna ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar?

Það er ákaflega mikilvægt að menn geri sér ljóst að eitt af stærstu verkefnunum sem við þurfum að kljást við er þetta atvinnuleysi. 20 milljarðar fara í atvinnuleysisbætur á þessu ári. Ef við hefðum farið aðra leið, náð atvinnuleysinu niður um helming og kostnaðurinn væri aðeins um 10 milljarðar þyrftum við ekki að skera niður um þessa 6,6 eða 6,8 og hefðum aukinheldur 3,2–3,4 til (Forseti hringir.) alvöruatvinnuuppbyggingar. Hugsum það að fara aðra leið.