140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er svolítið undrandi á orðum hv. þingmanns og tel rétt að undirstrika að þrátt fyrir að ég sé vinstri sinnuð er ég í Samfylkingunni og lít ekki á mig sem sérstakan túlkanda landsfunda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og vísa á alla þá glæsilegu hv. þingmenn þeirrar hreyfingar til að svara fyrir landsfund sinn.

Varðandi ályktunina fagna ég því að þar sé talað um að endurskipuleggja þurfi heilbrigðisþjónustuna með eflingu heilsugæslu og tilvísanakerfis. Það er algerlega í samræmi við þær tillögur sem velferðarráðherra var að fá í hendurnar varðandi frekari hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. En ég er sammála því að við göngum ekki lengra í niðurskurði í heilbrigðismálum en sem kveðið er á um í fjárlagafrumvarpinu 2012 nema þá vegna sérstakrar hagræðingar.

Varðandi ályktun um að komi til aukið svigrúm verði það nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu, finnst mér það sjálfgefið og ekki ástæða til einhverra sérstakra vangaveltna um það en ég bendi á að í þeim mikla niðurskurði sem þurft hefur að fara fram hafa margar greinar opinberrar þjónustu orðið fyrir miklum þrengingum þannig að það þarf að líta til fleiri þátta en heilbrigðisþjónustunnar ef svigrúmið eykst.

Varðandi þolmörk heilbrigðisþjónustunnar ítreka ég það sem ég hef áður sagt að þegar fjárlaganefnd fer yfir tillögur í fjárlagafrumvarpinu um frekari niðurskurð í heilbrigðisþjónustu förum við mjög gagnrýnið yfir það hvort þær ógni öryggi sjúklinga og við verðum óhrædd við breytingar ef mat okkar er að svo sé.