140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta gengur býsna langt í að banna auglýsingar á áfengi og myndin kann að vera svarthvít í augum sumra, að annaðhvort eigi að leyfa auglýsingar eða banna þær. Þá er frumvarpið klárlega komið frá þeim sem vilja banna auglýsingar.

Ég held hins vegar að ekki sé rétt að banna auglýsingar alfarið. Ég tel rétt að leyfa þær með ákveðnum skilyrðum eins og gert hefur verið hér á Íslandi, hvort sem menn kalla það undanþágur eða eitthvað annað. Ég held að það sé að mörgu leyti betra en að vera með allsherjarleyfi eða allsherjarbann, ég held að við séum ekki að ganga rétta braut í því. Við munum nefnilega alltaf sjá þann mismun sem töluvert hefur verið rætt um milli erlendra og innlendra aðila o.s.frv.

Ég sakna þess líka að sjá ekki í frumvarpinu sterkari rök fyrir því að þessi leið sé farin. Ég hefði til dæmis viljað sjá nákvæman samanburð á áfengisneyslu á Norðurlöndunum og í Evrópulöndunum miðað við þær reglur sem eru í gildi. Ég var að reyna að finna þetta áður en ég fór í ræðustól en fann þær ekki í fljótu bragði, slíkar upplýsingar munu væntanlega koma fram fyrir nefndinni ef ég veit rétt.

Ég held að engum dyljist að frumvarp sem þetta er íþyngjandi fyrir innlenda framleiðslu, hvort sem það er á bjór eða einhverju öðru. Ég ætla ekki frekar en aðrir að gera lítið úr þeim málflutningi sem hefur einkennt umræður um frumvarpið, menn hafa einfaldlega mismunandi skoðanir á þessum málum.

Hér er talað um menningu Íslendinga í áfengisnotkun og víndrykkju. Ég veit ekki hvort hún er verri en margra annarra þjóða, hér er hins vegar dregin upp mynd af henni. Við sem ferðumst víða sjáum ýmislegt sem er líkt með Íslendingum og öðrum þegar kemur að neyslu áfengis, að við tölum ekki um bölvað tóbakið.

Ég las frumvarpið og skoðaði athugasemd sem gerð var við það á fyrri stigum og í framhaldi af því velti ég því fyrir mér hvort ekki sé farsælla að reyna að finna lausn á þessu máli með þeim sem framleiða áfengi á Íslandi eða flytja það inn, þ.e. að leita leiða til að sætta sjónarmið þess sem framleiðir vöru og þarf að koma henni á framfæri og þá skoðun að of mikil áhætta sé tekin með því að auglýsa hana. Það gæti til dæmis verið á þann veg að fjármagn í forvarnir og fræðslu yrði aukið og kæmi þá úr ranni þeirra sem framleiða og auglýsa áfengi. Ég held hins vegar að nefndin eigi að fá tækifæri til að fara yfir þetta mál og vonandi verða gerðar einhverjar breytingar á frumvarpinu í meðferð nefndarinnar.

Hér eru taldar upp ýmsar undanþágur eða þ.e. að bannið eigi ekki við ákveðna hluti. Í 1. tölulið í 1. gr. er talað um viðskiptaboð, mér finnst það svolítið matskennt hvernig meta eigi þennan 1. tölulið.

Eins með 4. tölulið 1. gr., þar stendur:

„Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á vöruumbúðum áfengisframleiðanda, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.“

Má áfengisframleiðandi senda öllum þeim sem eru 20 ára og eldri bréf þar sem sagt er frá fyrirtækinu og þeirri vöru sem það framleiðir og vera með á bréfsefninu myndir af áfengistegundum, hvort sem er nú bjór, létt vín eða sterkt vín? Það eru ýmsir svona hlutir sem þarf að fara yfir og skýra.

Frú forseti. Ég held að frumvarpið þurfi að taka breytingum til að hægt sé að samþykkja það hér á Alþingi. Þar á ég við að draga þurfi úr þeim neikvæðu áhrifum eða skilgreiningum sem lúta að innlendri framleiðslu og markaðssetningu.