140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er í raun og veru mjög viðeigandi að þessi tillaga skuli vera á dagskrá hér að lokinni umræðunni um flutning ríkisstofnunar — stjórnsýslustofnunar og framkvæmdastofnunar frá höfuðborginni og til annars landsvæðis hvað sem Keflavíkurveginum líður, ef þingheimur samþykkir að notað sé gamalt örnefni á þá braut, það sem ég var alinn upp við og ekki hið nýrra. Það er viðeigandi vegna þess að þessi tillaga fellur mjög vel að þeirri umræðu sem fram fór í síðasta máli um hugsanlegan flutning Landhelgisgæslunnar með manni og mús úr höfuðborginni og annað. Sérstaklega vegna þess að það er einmitt vísað til umræðu af þessu tagi í greinargerð með þessari tillögu sem við flytjum fimm þingmenn Reykjavíkur, allt samfylkingarmenn, og verða vonandi fleiri þegar fram líða stundir ef þessi tillaga verður ekki samþykkt á þessu þingi, sem ég teldi fulla ástæðu til og hvet til að verði. Þeir eru Mörður Árnason, sem hér stendur, og svo hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, Skúli Helgason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar. Tillögugreinin er svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að ganga til viðræðna við borgarstjórann í Reykjavík um samning þar sem fram koma skyldur og réttindi Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands.“

Ég tel í tilefni af umræðunni áðan rétt að lesa greinargerðina eins og hún liggur fyrir á þingskjalinu en tek fram að þessi tillaga var áður flutt á síðasta þingi en komst þá aldrei til umræðu, var að ég hygg flutt ég man ekki hvort það var í mars eða apríl og lenti þar á miklum vegg ýmissa mála sem þurfti að ræða, en er nú endurflutt.

Allir vita, forseti, að höfuðborg Íslendinga er Reykjavík. Jafnan er miðað við að þetta hafi orðið þegar þar var sett niður heimastjórn árið 1904 en í Víkinni — þannig að notað sé annað gamalt örnefni sem ég tek mér bessaleyfi að flytja úr stólnum — var áður háð Alþing hið nýja frá sumri 1845, og æ síðan.

Í stjórnarskrá er höfuðborgar að engu getið en þó kveðið á um að Alþingi komi „jafnaðarlega“ saman í Reykjavík, að forseti Íslands hafi aðsetur „í Reykjavík eða nágrenni“ og að Stjórnarráðið sé í Reykjavík. Á síðasta þingi var í fyrsta sinn kveðið á um það í lögum að Reykjavík væri höfuðborg Íslands (10. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011). Óljóst er þó hvert inntak þeirrar vegsemdar er annað en það að orðið borg kemur fyrir sem fyrri samsetningarliður í stjórnsýsluheitum. Að öðru leyti er hvergi fjallað um höfuðborg Íslands eða höfuðstað í lögum, en síðarnefnda orðið, höfuðstaður, kemur þó fyrir í 38. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Allajafna er við það miðað um höfuðborg að hún sé aðsetur æðsta valds í ríkinu og miðstöð stjórnsýslu. Skyldur höfuðborgarinnar sem sveitarfélags eru því víðtækari en annarra sveita ríkisins þar sem íbúar hennar og leiðtogar þeirra verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar fyrir alla landsmenn. — Þá er sama hvort átt er við Reykjavík, Kaupmannahöfn, París, Moskvu eða aðrar höfuðborgir í heiminum. — Réttindi verður höfuðborgin að hafa á móti, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnutækifæri, skipulag og yfirbragð.

Umræða og átök um Reykjavíkurflugvöll — sem hér bar einmitt á góma í umræðu um síðasta mál — undanfarna áratugi hafa sýnt að nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands þannig að almenningur og forustumenn í borg og ríki geri sér glögga grein fyrir skyldum og réttindum sem fylgja höfuðborgarhlutverkinu, þar á meðal á samgöngusviði. Ákvarðanir og tillögur um flutning ýmiss konar stjórnsýslustöðva út á land hefur ekki síður skort þá umgjörð sem falist gæti í skýrri sýn á höfuðborgarhlutverkið á okkar tímum.

Í tillögunni er forsætisráðherra falið að leita viðræðna við borgaryfirvöld um eins konar höfuðborgarsamning. Í þeim samningi yrðu reifaðar skyldur Reykjavíkurborgar og réttindi sem höfuðborgar, getið þeirra breytinga á lögum og öðrum regluramma sem samningsaðilar yrðu ásáttir um að beita sér fyrir og kveðið á um skipulegt samráð ríkisstjórnarinnar, Alþingis og borgarstjórnar um ákvarðanir sem sérstaklega snerta stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar.

Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra, og eftir atvikum borgarstjóri, undirbúi viðræðurnar með athugun á stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og samskiptum borgarstjórnar og ríkisvalds frá upphafi aldarinnar sem leið. Einnig er eðlilegt að aðilar kanni stöðu höfuðborgar í helstu grannlöndum í aðdraganda viðræðnanna.

Svo mörg voru þau orð í greinargerðinni nokkurn veginn. Ég ætla ekki að bæta við mörgum fleiri á þessum stað í umræðunni nema geta þess að hugmyndin er auðvitað ekki beinlínis ný. Hún er meðal annars með öðrum hætti orðuð í höfuðborgarstefnu, mótunarklausu í þingsályktun sem kennd er við árið 2020. En ég hygg að sú aðferð sem hér er lögð til, beinar viðræður forsætisráðherra og borgarstjóra og annarra talsmanna Reykjavíkurborgar, skili meiri árangri og verði til þess að frjósamari umræða takist um þetta mál sem oft ber á góma og að árangurinn verði æskilegri fyrir höfuðborgarbúa og fyrir landsmenn alla og það takist sættir um höfuðborgina og hlutverk hennar þar sem höfuðborgarbúar og forustumenn í Reykjavík og nágrenni að sjálfsögðu, því að við erum auðvitað að tala um höfuðborgarsvæðið frekar en höfuðborg í þessu öllu saman, taka á sig þær skyldur sem menn hljóta að sinna í höfuðborginni en viðurkennd verði réttindi og sérstaða höfuðborgar þar á móti á landsbyggðinni. Meðal annars þannig að þegar menn vilja héruðum sínum og kjördæmum vel hætti þeir að koma með glannalegar tillögur um að taka stofnanir úr stjórnsýslumiðstöðinni og fleygja þeim út á land með manni og mús án tillits til þess hvernig sú starfsemi gengur og hverjir við hana vinna, bæta atvinnuástandið í sínu eigin héraði með því að draga atvinnuna úr öðru, sjálfri höfuðborginni sem öllum ætti að þykja vænt um alveg eins og öllum þykir okkur vænt um allt landið.

Forseti. Að lokum máls míns legg ég til að þegar þessi umræða er búin gangi málið til hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar vegna þess að hér er um sveitarstjórnarmál að ræða þótt forsætisráðherra sé sérstaklega nefndur sem ætlaður ábyrgðarmaður málsins.