140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu er án efa mikilvægasta úrlausnarefni og hagsmunamál okkar samtíma. (Gripið fram í.) En til að aðild verði að veruleika þurfum við að sjálfsögðu að ná ásættanlegum aðildarsamningi. Það skiptir öllu máli, undir eru gríðarlegir hagsmunir.

Í þessu sambandi var ánægjulegt að heyra um fundinn sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir átti í gær með danska forsætisráðherranum Helle Thorning Schmidt. Þar ræddu þær um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins en Danir taka eins og þekkt er við formennsku í Evrópusambandinu um áramótin og munu gegna henni til 30. júní árið 2012. Eins og fram hefur komið er sérstaklega áréttað í stjórnarsáttmála dönsku ríkisstjórnarinnar að hún muni styðja með virkum hætti við aðildarferlið og er það sérstakt ánægjuefni að danska ríkisstjórnin skuli koma svo myndarlega að þessu mikla hagsmunamáli okkar sem er aðildarumsóknin að Evrópusambandinu.

Það vegur auðvitað langþyngst hvernig samningi við náum í tveimur málaflokkum, annars vegar sjávarútvegsmálum og hins vegar landbúnaðarmálum. Þeim þriðja má að sjálfsögðu bæta við sem eru peningamál og upptaka evru í stað krónu. Þess vegna þurfum við að hraða ferlinu sem kostur er, helst eins og stefnt var að, að ná að ljúka því á þessu kjörtímabili og kjósa um samninginn áður en gengið verður til þingkosninga. Við getum nýtt velvild Dana til að ná sem allra hagstæðustum samningi á sem mestum hraða en þá skiptir máli að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láti af fyrirstöðu sinni í aðildarviðræðunum þar sem hann fer með tvo langviðkvæmustu og erfiðustu kaflana sem er mikilvægt að opna núna og fara sem lengst með undir forustu Dana. Því vildi ég vinsamlega hvetja hæstv. ráðherra til að gera allt sem í hans valdi stendur til að hraða vinnunni í þessum tveimur köflum sem bera með sér mestu hagsmuni Íslendinga í bráð (Forseti hringir.) og lengd.