140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur löngum þótt góður siður í ýmsum skólum landsins að rækta söng, almennan söng, og jafnframt ljóðalestur. Kannski hefur ekkert stutt eins vel við verndun og sókn íslenskrar tungu og það að halda ljóðalestri að okkar unga fólki í skólum landsins. Það er mannbætandi, það eykur hugmyndaflugið, það eykur listrænt gildi og þroskar svo margt í fari fólks sem bætir líf og umhverfi, tillitssemi og væntumþykju sem skiptir miklu máli að sé til staðar.

Reynslan hefur sýnt að ljóðakennsla í skólum landsins hefur tvímælalaust leitt til betri málnotkunar nemenda og styrkari tengingar þeirra við hrynjandi og myndræna möguleika tungunnar. Ljóðakennslan hefur reynst mörgum traustur lífsförunautur og styrkt um leið málnotkun á áberandi hátt. Eitt ljóð getur verið vinur manns alla ævina og fylgifiskur, skjól og um leið hvatning til þess að leggja eins vel af mörkum og kostur er. En þessa þætti, ljóðakennslu og almennan söng í skólum höfum við vanrækt. Við þumbumst áfram, berjum höfðinu við steininn og setjum margt á dagskrá í menntakerfi okkar sem er að mörgu leyti fánýtt og er meira til að staglast á á blaði en brjóta leiðir í lífinu sjálfu. Ljóðaþátturinn á að vera okkar aðalsmerki til að verja og byggja upp íslenska tungu og það er engin spurning að fátt styrkir málnotkun jafnmikið og ljóð.

Virðulegi forseti. Við áttum oft tal saman, við Halldór Laxness heitinn, og oftar en einu sinni ítrekaði hann það við mig að hann teldi að ljóðin sem hann samdi væru það besta sem hann hefði skrifað. Margir sérfræðingarnir sem vita betur en höfundurinn hafa ekki haldið þessu mikið fram en þetta sagði skáldið sjálft, að það mikilsverðasta sem hann hefði gert á vettvangi ritlistarinnar væri að skrifa ljóð.

Þetta segir mikla sögu og sýnir í rauninni að við eigum gullnámu í landinu. Við klifum á fjárfestingum í áliðnaði, gagnaverum, ýmsu sem menn geta gengið að með verklagni sem er ekki flókin, en við sinnum allt, allt of lítið þeim þáttum sem eru mannbætandi og færa okkur nær hvert öðru í okkar litla samfélagi sem skiptir miklu máli að haldið sé til haga þar sem við erum að berjast á vettvangi stórþjóða heimsins. Stíll okkar Íslendinga hlýtur að byggjast á íslenskri tungu, íslenskum veruleika, íslenskri hugsun og nálægð við okkar öflugu náttúru, við okkar dýrmætu auðlindir sem við þurfum jafnframt að umgangast af mikilli virðingu.

Skólasöngur er að mörgu leyti tengdur ljóðunum því að mörg ljóð, ekki síst eldri ljóð, eiga kjól sem heitir lag og þegar saman fer fallegt ljóð í fallegum kjól er gaman að lifa. Þá fer sortinn út í buskann, þá fara leiðindin til hliðar og leikgleðin ræður ferð og það skiptir miklu máli að við séum opin fyrir þeim þætti mannlífsins að rækta leikgleði, ekki síst meðal okkar unga fólks. Samkeppnin er mikil, bíómyndir með erlendum málum, sjónvarpsefni alls konar, lagasmíð o.fl. sem ruglar oft fólk í ríminu, því miður.

Það hafa skipst á tímabil þegar íslenskir tónlistarmenn á vettvangi dægurtónlistar, popps og annarra þátta semja og leggja áherslu á íslensku í tónlist sinni og þegar það þykir ekki fínt lengur, en kannski er það fyrst og fremst vegna þess að það er miklu erfiðara að semja góðan texta á íslensku en lélegan texta á ensku.

Þeir sem hafa upplifað skólasöng í skólum búa að því ævilangt. Það er merkilegt að í rauninni syngja Íslendingar almennt u.þ.b. 400 texta, það er svolítið mismunandi eftir landshlutum en þeir kunna almennt 400 texta þó að textarnir séu mun fleiri, 800–1.200, sem eru almennir söngtextar á Íslandi. Þorri fólks kann a.m.k. 1/3 af þessu hlaðborði tónlistarinnar.

Það hefur líka komið fram hjá mest menntaða fólkinu að það sé ekki fínt að syngja, það sé lágkúrulegt. Það hefur sem betur fer aldrei flokkast undir snobb að iðka almennan söng en slíkur söngur er gríðarlega gefandi. Á því hafa þeir skilning sem hafa staðið í slíkum verkefnum um langt árabil. Eitt er til að mynda sérstakt þegar samkomur eru haldnar og fjöldasöngur er tekinn upp að þá minnkar í jafnmiklu hlutfalli að vínflöskur sjáist á lofti vegna þess að menn hverfa inn í sönginn. Það dregur úr notkun bæði á áfengi og tóbaki. Af hverju ættum við ekki að rækta þennan þátt betur en við gerum og tryggja það í skólakerfi okkar að skólasöngur sé til staðar?

Það þarf ekki sérfræðinga til að rækta skólasöng. Það þarf að vanda texta- og lagaval og vera opinn fyrir því að þeir sem eiga að taka þátt í honum, skólafólkið sjálft, komi með hugmyndir og geti byggt þær upp. Auðvitað ætti það að vera námsgrein í hverjum einasta skóla landsins að rækta þennan þátt, rækta hann fyrst og fremst með tilliti til félagslegs starfs, málnotkunar og þroska og til að létta lífið, því að auðvitað er hver dagur hvar sem er barátta og vinna og það sem meðal annars léttir lífsbaráttuna er að syngja saman eða einn eftir atvikum. Þess vegna er þessi tillaga fram komin að nýta söngelskt fólk í öllum byggðum landsins, öllum sveitum, til þess að færa fólk saman með það að markmiði að bæta andrúm og létta leikinn í hvunndagsstarfinu hvarvetna.