140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að vera með andsvar beinlínis heldur frekar meðmæli. Ég vil fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá og það er gaman hvernig málin röðuðust í dag; fagurfræðin, máltilfinningin og síðan undirstaða alls sem við lærum, að læra gagnrýna hugsun og kunna að taka þátt í rökræðum þar sem rætt er um málefnið en ekki manneskjuna. Ef það er eitthvað sem við þurfum að læra í samfélagi okkar í dag er það það.

Það var jafnframt ánægjulegt að heyra af fréttatilkynningunni um það starf sem er að hefjast til að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði og er í raun og veru undirbúningur að þessu máli. Því vona ég að það fái brautargengi á þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Þór Saari, frummælanda þessa máls, hvort honum finnist ekki jafnframt mikilvægt að það yrði skylda að læra eitthvað um stjórnarskrá okkar í grunnskólunum og hvort ekki þurfi að aðlaga hana að þeim veruleika sem börn búa við þannig að þau skilji um hvað þessar grunnstoðir samfélagsins snúast. Ég hef reyndar velt fyrir mér, af því að Þórarinn Eldjárn er mikill snillingur í að aðlaga ljóð eins og Völuspá og nú síðast Hávamál að nútímaíslensku, hvort það væri ekki snilld að sá ágæti maður skoðaði drög að nýrri stjórnarskrá og færði hana í búning fyrir grunnskóla landsins. Mig langar að spyrja hvað hv. þingmanni finnst um slíkt, einhverja slíka aðferðafræði, að reyna að koma stjórnarskrá okkar, hvort sem það er núgildandi stjórnarskrá eða ný, í hendurnar á börnunum þannig að þau skilji hver samfélagssáttmáli okkar er.