140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt líkt með skyldum, má kannski segja, því að aðkoma mín að heimspeki í upphafi var sú að ég tók hana sem valfag á háskólastigi. Ég gat valið á milli landafræði, stjörnufræði eða heimspeki, held ég að það hafi verið, og ég valdi heimspeki og varð alveg heillaður.

Ég lærði talsvert í heimspeki á háskólaárum mínum og var þá í Bandaríkjunum en þegar ég kom hingað heim kynnti ég mér náttúrlega þá íslensku heimspekinga sem við eigum hér og las mikið eftir þá og það kom mér skemmtilega á óvart. Við eigum mjög mikið af góðum heimspekingum og ég tel það mjög mikilvægt. Háskólasamfélagið á Íslandi á marga mjög vel þenkjandi menn sem hafa skrifað merkileg rit um heimspeki. Eins og ég sagði áðan byggjum við líka á fornri frægð í þessum málum, ég vísaði m.a. til Hávamála en einnig má vísa til annarra fornrita, þannig að Ísland er mjög vel í stakk búið til að takast á við aukna kennslu í þessari grein.

Ég fagna því sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði hér, hann er formaður allsherjar- og menntamálanefndar og gaman að heyra að það er áhugi þar á bæ á framgangi þessa máls. Ég mun ásamt hv. þm. Birgittu Jónsdóttur náttúrlega skaffa það efni sem til þarf til að auðvelda umræðu um málið í nefndinni og koma því á rekspöl og vonandi á leiðarenda líka.