140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[17:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði bara að botna það sem ég var að segja áðan þegar ég vitnaði í fræga grein Páls Skúlasonar. Önnur af frægustu greinum íslensku heimspekinganna er eftir Þorstein heitinn Gylfason sem kenndi mér mikið og ég skrifaði BA-ritgerðina mína hjá. Hann skrifaði ritgerð sem varpaði fram stórri spurningu, „Hvað er réttlæti?“, og setti þar fram sína eigin verðleikakenningu um réttlæti. Ég skrifaði BA-ritgerð mína um þá kenningu og um frjálshyggjukenningu Roberts Nozicks og réttlætiskenningu Johns Rawls. Þetta eru ógurlega skemmtileg fræði og þau tengjast auðvitað beint okkar samtíma og fortíð og framtíð og varpa því ljósi á heimspekina að hún er líka mjög stjórnmálalegs eðlis og auðvelt að tengja hana beint inn í samtímann. Ef það er eitthvað sem við erum að fást við hér, í það heila, er það hvernig við getum byggt upp réttlátt samfélag eftir þær ógöngur og hamfarir sem við höfum gengið í gegnum.

Það er því hægt að finna mörg rök fyrir því að þetta fag sé kennt af því að það á svo sannarlega (Forseti hringir.) margar hliðar sem við getum miðlað inn í samfélagið.