140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það úrræði sem hv. þingmaður nefnir hér og við getum talað um sem lyklafrumvarpið er það í okkar huga mikið grundvallaratriði að ekki sé mælt fyrir tillögum sem leiða til þess að gengið sé jafnlangt og hér er lagt til til þess að hjálpa eignafólki, fólki sem á kannski aðra og jafnvel þriðju fasteign, hugsanlega dýra bíla, íbúðir eða mikla og digra sjóði, fólki sem raunverulega hefur svigrúm til að standa í skilum. Við erum fyrst og fremst að reyna að ná til þeirra sem eru algerlega komnir upp að vegg. Við höfum fengið dæmi, ég hef sjálfur fengið til mín dæmi á fundum frá fólki sem vill standa í skilum en því finnst sem kerfið sé að koma því út í vanskil. Það er einfaldlega ekkert vit í því fyrir okkur að keyra slíkt fólk í þrot. Við eigum að hvetja fólk til þess að standa í skilum og síðan eigum við að horfast í augu við það þegar eignalaust fólk þarf að losna út úr þessari stöðu sem (Forseti hringir.) hrunið leiddi yfir það. Þá þarf úrræði eins og þetta.