140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Nei, virðulegur forseti, ég er alls ekki sammála hv. þingmanni um þetta. Ástæðan fyrir því að í hagtölum virka skattgreiðslur á Íslandi í lægri kantinum miðað við önnur ríki er að í öðrum ríkjum er gegnumstreymisfyrirkomulag lífeyriskerfisins. Þar borga vinnandi kynslóðir inn í ríkissjóð og eldri kynslóðir fá borgað út úr ríkissjóði. Það sem síðan gerist er að þegar visst jafnvægi er komið í mannfjöldaþróunina verður sú byrði allt of þung fyrir vinnandi kynslóðir, þ.e. að halda uppi eldri kynslóðum. Til dæmis fór á Ítalíu 31% af launasummunni sem þar var borguð eða launatengdum kostnaði í að borga ellilífeyri. Það var orðið allt of þungt og kerfið var sprungið. Meðal annars af því stafa fjárhagsvandræði Ítalíu. Það eru fleiri lönd, Grikkland er náttúrlega dæmi um annað land sem svona er komið fyrir.

Hér á Íslandi var farin sú leið að hafa þetta kerfi á einkamarkaði og fólk mundi sjálft fjármagna kerfið með því að tekið yrði af launum þess og kostir fjármagnsmarkaðarins yrðu nýttir og enn meiri eign byggð upp þar. Síðan fær fólk í samræmi við það sem það hefur borgað inn í sjóðina út úr sjóðunum. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni í því að farið hafi verið of hratt í þetta. Ég tel að þetta hafi verið mikið gæfuspor en aftur á móti eru ágallar á lífeyrissjóðakerfinu sem má tala um og er rétt að tala um að þurfi að endurbæta. Heildarkerfið (Forseti hringir.) er ég mjög ánægður með.