140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það sem betur fer ekki þannig á Alþingi að við skiptumst í stjórnmálaflokka eftir því hvort við erum með eða á móti meiri fjárfestingu eða hærra atvinnustigi. Sem betur fer er það þannig að sama í hvaða stjórnmálaflokk menn skipa sér styðja þeir aukna fjárfestingu og hærra atvinnustig. Það gerum við sannarlega í Samfylkingunni, en það er sannarlega vonarpeningur. Auðvitað eru áætlanir um slíkt ekkert annað en frómar óskir um að efnahagsþróun í heiminum verði hagfelld, um það að hingað megi laða erlenda fjárfesta o.s.frv. Um það höfum við þar sem við stöndum núna ekkert í hendi og þar af leiðandi engar ábyrgar aðstæður til að lýsa því yfir að við ætlum að taka niður tekjuöflun ríkissjóðs frá því sem hún nú er þegar ríkissjóður þó er rekinn með halla. Slíkar yfirlýsingar mundu aldrei gera neitt annað en að svipta okkur trúverðugleika (Forseti hringir.) á alþjóðlegum mörkuðum og þar með rýra möguleika okkar til að draga hingað inn erlenda fjárfestingu.