140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[16:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst um fjallvegi.

Fjallvegir hafa nú dugað okkur bara ágætlega á Íslandi og tekist hefur að laga þá þannig að þeir auðvelda umferðina. Ég nefni Bröttubrekku, Kambana, Bólstaðarhlíðarveginn upp í Vatnsskarðið. Ekki eru þetta illfærir vegir. Vegagerðin hefur talið að hægt væri að laga Hjallahálsinn og Ódrjúgshálsinn. Þetta vilja heimamenn ekki. Allt í lagi, þá setjum við þetta til hliðar og það hef ég sagt.

Þá er það spurningin um Teigsskóginn. Hv. þm. Kristján L. Möller minnti okkur ágætlega með spurningu sinni á karp liðinna tíma sem leiddi til árangursleysis og stöðnunar um langt, langt árabil. Nú tel ég kominn tíma til þess að menn losi um þráhyggjuskrúfuna á sálartetrinu. Við setjum hálendisleiðina til hliðar og líka Teigsskóg og við skoðum aðra kosti. Þá skoðum við annars vegar að bora okkur í gegnum hálsana, (KLM: Hálsana?) — Hjallahálsinn (KLM: Tvo?) eða að við þverum þetta. — Þetta eru dæmigerð frammíköll sem skýra hvers vegna hv. fyrrverandi samgönguráðherra náði aldrei neinum árangri og setti málið í stopp.

Við skoðum líka þverun fjarða. Ég hef verið mjög gagnrýninn á þverun fjarða af umhverfisástæðum, þveranir eyðileggja skerin og þær þveranir sem farnar hafa verið á undangengnum árum hafa eyðilagt fjarðarbotna, það hefur verið farið of innarlega. Menn hafa hins vegar lært af reynslunni og fært sig út eftir fjörðunum, búið til annars konar brýr, umhverfisvænni, með meira hafi.

Hv. þm. Mörður Árnason hristir höfuðið. Já, þetta er umdeilt mál, en við skulum skoða það.

Tekst okkur (Forseti hringir.) að hanna brýr sem eru umhverfisvænar og skaða ekki umhverfið? Þess vegna tek ég heils hugar (Forseti hringir.) undir óskir og tillögur hv. málshefjanda. Við skulum skoða þær leiðir sem eru færar, láglendisleiðir sem eru færar, ég tek (Forseti hringir.) undir það. Teigsskógur er út úr kortinu, hálsaleiðin er út úr kortinu.