140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

umræða um sparisjóði.

[11:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég geri alvarlega athugasemd við fundarstjórn forseta og hvernig forseti heldur á málum í þinginu akkúrat núna. Ég furða mig á því að hæstv. fjármálaráðherra lýsi því jafnframt yfir að hann muni ekki koma í sérstaka umræðu um framtíð sparisjóðakerfisins eins og óskað var eftir þar sem hæstv. fjármálaráðherra er búinn að sitja í fyrirspurnatímanum og er með næstu þingmál á eftir. Það er alveg með ólíkindum og óskiljanlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki gefa færi á því að ræða framtíð sparisjóðakerfisins.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir óskaði eftir að spyrja hæstv. ráðherra um sama málefni, um sparisjóðina, en hæstv. forseti ákvað að hleypa þingmanninum ekki að með þá fyrirspurn. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort það séu samantekin ráð forseta og fjármálaráðherra að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að framtíð sparisjóðanna sé rædd í þingsal. Það er algerlega óásættanlegt ef svo er.

(Forseti (ÁRJ): Forseti frábiður sér slíkar dylgjur sem fram koma í málflutningi hv. þingmanns (GBS: Forseti …) og tekur fram að hér bárust mjög margar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Það eru fimm fyrirspurnir sem komast að og það er forseta að meta hvaða fyrirspurnir það eru. )

Akkúrat, það er forseta að meta það.