140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:14]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Skil ég það rétt að hv. fjárlaganefnd hafi veitt þessa heimild á forsendum þar sem kemur ekki fram ein einasta tala um það hverjar tekjur af þessari framkvæmd verða og afhendir málið fjármálaráðherra, en þetta virðist meira vera hans persónulega áhugamál? Það er augljóst að þetta mun ekki standa undir sér, hvorki í nútíð né í framtíð, miðað við þær forsendur sem hér er lagt upp með, og ótrúlegt miðað við þær forsendur meðal annars að ekki skuli fást einkafjármögnun í þetta mál því vaxtakostnaðurinn við það er það hár að hvaða fjármálafyrirtæki sem er mundi stökkva á þetta og fjármagna þetta að öðrum kosti. Það er því greinilega eitthvað mjög mikið að þessum forsendum. Ég geri alvarlega athugasemd við það ef fjárlaganefnd ætlar að afgreiða þetta mál endanlega frá sér án þess að hafa upplýsingar um hverjar tekjur verkefnisins verða.