140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að til að leysa skuldavanda heimilanna þurfi ríkið að taka stærri og ákveðnari skref en það hefur gert hingað til. Leitað hefur verið eftir því að ná samkomulagi, samkomulagi sem hver og einn banki framkvæmir eftir því sem honum þykir henta best eins og kom fram í eftirlitsskýrslunni sem var kynnt á Alþingi fyrr í haust. Það sama á við lífeyrissjóðina, ég held að það þurfi einfaldlega að taka af skarið og skattleggja þá ef lífeyrissjóðirnir eru ekki reiðubúnir að koma að borðinu. En ef ég hef sagt að ráðuneytið eigi að beita sér fyrir því þá biðst ég velvirðingar á því. Ég held reyndar að ég hafi verið að tala um ríkisstjórnina, að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því, en þetta er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis á endanum.

Varðandi Vaðlaheiðargöng þá er Víkurskarðið fallegt, já já. Það er Hvalfjörðurinn líka og menn hafa örugglega sagt í umræðunni um Hvalfjarðargöng að einhverjir mundu frekar vilja keyra hinn fallega Hvalfjörð. Ég held að nákvæmlega það sama muni gerast með Vaðlaheiðargöng; stór hluti bílanna, ef ekki allur fyrir rest, mun fara í gegnum göngin vegna þess að þeir sem keyra Víkurskarðið reglulega, þar á meðal ég, átta sig á því að það er mjög hættulegur vegur. Þar varð alvarlegt slys fyrir ekki svo mörgum árum síðan og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær slíkt gerist aftur.

Ef forsendur bregðast eins og hv. þingmaður spurði mig um, vil ég segja að þá mun hinn aukni kostnaður einfaldlega lenda á greiðendum í göngin, væntanlega með lengri lántöku. Ég reikna með að eins og með allar framkvæmdir verði reynt að endurfjármagna lán á einhverju árabili, en ég vona þó ekki. (Forseti hringir.) Þetta verður ekki tekið úr vasa skattgreiðenda eins og í tilfelli Hörpunnar og væntanlega hátæknisjúkrahússins.