140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að nefna það sem hv. formaður fjárlaganefndar kom inn á í upphafi ræðu sinnar að auðvitað undirstrikar frumvarp til fjáraukalaga ágætan og mikinn árangur í ríkisfjármálum á síðustu árum, og undirstrikar það að öllu leyti, bæði hvað varðar viðsnúninginn í stöðu ríkissjóðs sem átti sér stað á þessum tiltölulega stutta tíma og eins það sem Ríkisendurskoðun áréttar hér að agi sé nú meiri og vinnubrögð vandaðri en hafa viðgengist áður. Auðvitað er það sérstakt fagnaðarefni sem er ágætt að draga fram og allir sem í nefndinni sitja og hafa setið og að þessum málum koma svo og hæstv. ráðherrar eiga að sjálfsögðu lof skilið fyrir það. Það má með sanni segja um aðdragandann að þessu frumvarpi að þar var vandað mjög til verka, enda sést það á frumvarpinu og þeirri umræðu sem fer fram hér í dag.

Ég ætla að reifa nokkur atriði, fyrst í því máli sem mesta athygli vekur og mesta athygli fær í umræðunni sem eru Vaðlaheiðargöngin. Það má segja að með þessu frumvarpi séu þau formlega komin af stað og til framkvæmda þegar þetta samþykki gengur fram. Varðandi afstöðu mína til þess, þá eru hagsmunir mínir hvað varðar kjördæmahagsmuni og byggðahagsmuni sem slíka engir, ég hef ekki aðra hagsmuni en almannahagsmuni í þessu máli og hef alltaf verið mikill stuðningsmaður þessa verkefnis af margvíslegum ástæðum. Þetta er eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum í samgöngumálum á Íslandi öllu. Þetta hefur mikil byggðaleg áhrif á tiltölulega stóru svæði, opnar greiðar leiðir á milli stórra og þéttbýlla svæða á Norðausturlandi. Í öðru lagi er hægt að fullyrða að sú byggðastefna sem mestu máli skiptir og hefur fært okkur mestan samfélagslegan ábata á síðustu árum er þegar okkur hefur tekist að stytta leiðir, greiða samgöngur og stórbæta umferðaröryggi frá því sem áður var og opna á milli landsvæða. Má telja upp mörg verkefni þessu til stuðnings.

Af því að hér var rætt um kjördæmahagsmuni — og eins og ég sagði áðan er þetta ekki í mínu kjördæmi, ég hef ekki aðra hagsmuni en bara djúpa sannfæringu fyrir því að þetta sé gott mál út frá almannahagsmunum — þá má nefna nýlega samgöngubót sem sumir kalla samgöngubyltingu, sérstaklega fólkið sem býr á því svæði, og það er Suðurstrandarvegur. Hann opnaði nýja leið á milli tveggja 2 þús. manna samfélaga, Grindavíkur og Þorlákshafnar í Ölfusi og sameinaði auðvitað tvö 20 þúsund manna svæði í eitt, má segja, með frábærum vegi eftir suðurströndinni og undirstrikar rækilegar og betur en margt annað hve samgöngubæturnar geta valdið mikilli byggðarlegri byltingu. Ég held að Vaðlaheiðargöngin eigi eftir að gera það. Ég held að bæði þeir sem hafa efasemdir um forsendurnar og þeir sem eru ákafastir stuðningsmenn framkvæmdanna geti vel við þessa niðurstöðu unað, af því að hér er sleginn ákveðinn varnagli gagnvart þeim sem hafa efasemdir um að full vissa um forsendur muni liggi fyrir. Ég held að báðir hóparnir — og skiptir þá engu máli þó að það hafi verið ágreiningur innan einstakra þingflokka um málið, það er bara eðlilegt, samgöngumál eru þess eðlis að stuðningur eða fylgi við einstakar framkvæmdir hafa ekki endilega svo mikið með flokkslínur almennt að gera: En hérna stendur, með leyfi forseta:

„Forsenda Alþingis fyrir ákvörðun um að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga hefur verið að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti. Sú forsenda er óbreytt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.“

Þetta er alveg prýðileg niðurstaða og ekki síst fyrir þá sem vilja ganga varlega um en um leið er verið að veita afdráttarlausa heimild til þess að í þetta verði farið, þessi fyrsti milljarður, og auknar heimildir þarf alltaf að sækja aftur þannig að hér er varlega farið og skynsamlega í gríðarlega stóru og mikilvægu verkefni.

Vaðlaheiðargöngin voru ásamt tvöföldun vega á suðvesturhorninu, á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi á sínum tíma, tekin út fyrir sviga í samgönguáætlun og stefnt að því að fara í sérstaka framkvæmd er þau varðaði og yrði greitt með veggjöldum eða notendagjöldum. Ég held að það hafi verið mikil vonbrigði að okkur skyldi ekki takast að lenda Suðurlandsveginum og Vesturlandsveginum og suðvesturhornsframkvæmdunum, Sundabrautinni, með sambærilegum hætti. Að einhvers konar hófleg notendagjöld yrðu innheimt með rafrænum hætti þannig að ekki þyrfti, eins og hv. þingmenn hafa nefnt, að stoppa við gjaldskýli heldur væru þetta í rauninni notendagjöld sem kæmu að einhverju leyti í staðinn fyrir veltuskattinn sem við borgum núna í gegnum eldsneytið. Við borgum himinháar fjárhæðir í gegnum hvern keyptan lítra af olíu og bensíni. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun og ég held að þetta sé bara ágæt þróun að við borgum fyrir notkun á akbrautunum með þessum hætti. Það var mjög leitt og það voru vonbrigði, eins og ég sagði, að þetta skyldi ekki takast eða hafi ekki enn tekist með veginn á Suðvesturlandi. Það hefði orðið aflvaki mikilla framkvæmda og verið miklar samgöngubætur öryggisins vegna, greiðari leið og styttri leið. Við sjáum það á þeim 7 kílómetra kafla var verið að taka í notkun á Suðurlandsvegi, tvöfalda kafla, þar aka menn aðskildar akbrautir í rauninni alveg frá Skíðaskálanum og 7 kílómetra niður fyrir Litlu kaffistofuna, og öryggis- og umferðarbótin af þessu er alveg gríðarleg fyrir okkur sem ökum þetta nánast daglega. Það er þvílíkur léttir og þvílíkt öryggi og fólk er fljótara á milli einfaldlega af því að það hægir ekki eins á umferðinni sem gengur auðvitað á tvöföldum hraða þar sem er ekki sami hámarkshraði fyrir litla bíla og stóra o.s.frv.

Niðurstaðan um Vaðlaheiðargöngin er að þau fara af stað og þessi mikla samgönguframkvæmd, byggða- og atvinnuframkvæmd verður að veruleika. Þegar summan er tekin saman af öllum þessum þáttum er það mikið ánægju- og fagnaðarefni að Vaðlaheiðargöng skuli fara af stað og að við höfum lent þessu máli með þeim hætti að um leið séu þeir fullvissaðir um forsendur sem vildu stíga varlega til jarðar. Ég er alls ekki að gera lítið úr sjónarmiðum þeirra á neinn hátt, það er ekkert óeðlilegt við það að fólk vilji hafa fullvissuna fyrir framan sig um stór verkefni sem ríkið kemur að. Ég held að lendingin hjá formanni fjárlaganefndar og þeim sem hana fundu sé þeim til mikils sóma og ég fagna því.

Hitt málið sem ég vildi nefna sérstaklega er eitt stærsta málið í fjáraukalögunum og það verðskuldar umræðu af því að þar er um að ræða miklar fjárhæðir bæði fyrir ríkissjóð og Reykjanesbæ. Þar er lagt til að fjárheimild til fjármálaráðuneytisins verði aukin um tiltekna upphæð. Með leyfi forseta, stendur hér:

„Lagt er til að veittar verði 1.230 millj. kr. vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Landið og auðlindin eru nú nýtt til raforkuframleiðslu Reykjanesvirkjunar sem er í eigu HS Orku hf. Íslenska ríkið á fyrir um helming þeirra orkuauðlinda sem virkjunin nýtir vegna eignarhalds á ríkisjörðinni Stað á Reykjanesi. Með kaupum á Kalmanstjörn og Junkaragerði verður jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eigu ríkisins, sem hefur mikið hagræði í för með sér, enda munu nýtingargjöld þá öll renna til ríkisins án flókinnar skiptingar milli eigenda auðlindarinnar. Eigandi landsins og auðlindarinnar nú er sveitarfélagið Reykjanesbær.“

Kaupverðið greiðist að hluta með skuldajöfnun upp á tæplega 900 millj. kr. Þetta er fjármagnstekjuskattur sem Reykjanesbær skuldar ríkinu þannig að stærstur hluti kaupvirðisins er skuldajöfnun þannig að rétt um milljarði króna er þar með létt af skattgreiðendum. Skuldaklafa upp á milljarð er létt af skattgreiðendum í Reykjanesbæ með þessari skuldajöfnun sem hlýtur að vera mjög heppileg niðurstaða bæði fyrir ríki og bæ þar sem ríkið eignast þarna auðlindir, og það tengist aftur deilunum um auðlindirnar, kaup Magma og fleira. Þannig að ríkið á þessar miklu auðlindir og til ríkisins rennur þá afgjaldið, nýtingargjaldið af auðlindunum. Um leið tryggir Reykjanesbær sér tekjur og auðlindin er áfram í opinberri eigu, skuldaklafi og skuldabyrðar Reykjanesbæjar og bæjarsjóðs léttast um nánast einn milljarð. Það hlýtur að bæta stöðu sveitarfélagsins töluvert mikið að ríkið komi með svo myndarlegum og rausnarlegum hætti að málefnum bæjarfélagsins, sem eins og mörg önnur sveitarfélög glímir við skuldavanda. Með þessari skuldajöfnun upp á tæpar 900 millj. kr. er miklum skuldaklafa létt af skattgreiðendum í Reykjanesbæ og niðurstaðan eru viðskipti sem báðir geta haft sóma og mikinn ábata af.

Í lokin stendur: „Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði greiddur með beinu framlagi úr ríkissjóði.“

Fyrir utan þessa 900 millj. kr. skuldajöfnun renna svo 330 millj., þriðjungur úr milljarði í bæjarsjóð Reykjanesbæjar þannig að þessi viðskipti hljóta að vera mikið ánægjuefni og fagnaðarefni þeim sem fara með forræði í Reykjanesbæ og um leið getur ríkið tryggt sér yfirráð yfir auðlindunum þó að búið sé að leigja nýtinguna á þeim til lengri tíma í gegnum HS Orku.

Það sem um er að ræða, til að varpa aðeins betra ljósi á málið, er að Reykjanesveita sækir orku sína annars vegar í land Staðar sem ég nefndi áðan sem er í eigu ríkisins og hins vegar í land Kalmanstjarnar og Junkaragerðis sem er í eigu Reykjanesbæjar. Sameiginleg heitavatnsréttindi eru þannig í eigu tveggja aðila og ágreiningur þeirra á milli um hvernig eigi að skipta þeim réttindum getur auðvitað þvælst fyrir nýtingu á þessari mjög svo mikilvægu auðlind. Kaup ríkisins leysa úr þessum ágreiningi.

Það kemur fram í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu að það fékk til liðs við sig Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, til að leggja mat á orkugetu svæðisins svo og um hugsanlega nýtingarmöguleika og verðmæti réttindanna. HS Orka hefur þegar leyfi frá Orkustofnun til að nýta orku allt að 180 megavöttum en verksmiðjan framleiðir núna 100 megavött. Þarna eru því mjög miklir hagsmunir undir, miklir möguleikar á að framleiða mikla raforku. Þess vegna skiptir eignarhaldið miklu máli og að það sé ekki ágreiningur um nýtinguna og eignarhaldið sem geti þvælst fyrir áformum HS Orku eða annarra til að nýta ónýtta orku í jörðinni.

Verðmatið sem þarna liggur fyrir byggist á því að réttindi til þessara virkjunarmöguleika verði nýtt, þ.e. að þessi 80 megavött verði nýtt auk þeirra 100 sem eru nýtt fyrir. Þegar gengið var til þessara viðskipta þurfti að ná niðurstöðu bæði um væntingar kaupenda og seljenda sem varð sú að fá ráðgjafa frá ráðuneyti og annan frá Reykjanesbæ til að ná niðurstöðu sem varð svo grundvöllur að þessum samningi sem er hægt að kalla endanlegan samning. Á þessum grundvelli sættust samningsaðilar á að kaupverð fyrir heitavatnsréttindi og landið ofan þeirra skyldi metið á 1.230 millj. kr. Verðmætið grundvallast þannig í aðalatriðum á því afgjaldi sem ríkið fær frá HS Orku fyrir nýtingarréttinn af núverandi virkjun og þeim réttindum til nýtingar sem þessu fylgir. Áformað er að skrifa undir samninginn á morgun, með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjáraukalögunum, og jafnframt fyrirvara um samþykki eigenda HS Orku sem krafa er gerð um að falli frá ýmsum réttindum sem þeir höfðu við Reykjanesbæ.

Þetta er flókið mál og stórt og hefur örugglega tekið sinn tíma en það er mjög vel að málinu staðið, bæði af hálfu fjármálaráðuneytisins og Reykjanesbæjar, og ég held að niðurstaðan hljóti, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni, að vera mikið ánægjuefni bæði fyrir ríkissjóð og Reykjanesbæ. Miklum skuldaklafa er létt af Reykjanesbæ þar sem skuldin út af fjármagnstekjuskattinum er þá uppgerð auk þess sem hann fær laust fé til reksturs.

Annað sem ég vildi rétt tæpa á snýr að Landeyjahöfn sem er ein af þeim miklu samgönguframkvæmdum sem við höfum ráðist í á síðustu árum þó hún hafi verið umdeild út af því hvernig gengið hefur að nota hana, sem orsakaðist að einhverju leyti út af miklum burði efna úr öskugosinu í Eyjafjallajökli og víðar og eins af því að Herjólfur sem þarna siglir á milli er ekki það skip sem áætlað var að mundi sigla heldur minna og grunnristara skip. Þá hefur þurft að leggja til auknar fjárheimildir til að hægt sé að halda þessu mikla mannvirki opnu, sem á sínum tíma kostaði yfir 4 milljarða, enda er mikið undir að hægt sé að halda þessari leið opinni. Þarna er ekki nema hálftíma sigling á milli lands og Eyja á meðan ferð til Þorlákshafnar tekur margfalt lengri tíma. Hér er lögð til 135 millj. kr. fjárheimild vegna aukinnar fjárþarfar við rekstur Herjólfs þar sem forsendur fyrir rekstrinum hafa ekki gengið eftir og gert var ráð fyrir níu manna áhöfn í siglingu til Landeyjahafnar en þegar sigla þurfti til Þorlákshafnar varð að fjölga aftur í áhöfn um þrjá menn. Þetta er mjög mikilvægt mál og mikilvæg heimild sem hér er lögð til til að samgöngur á milli lands og Eyja geti gengið eins hnökralítið og hægt er á meðan sigla þarf til skiptis í hafnirnar eftir því hvernig vindar blása. Hér er því lögð til 70 millj. kr. fjárveiting til Landeyjahafnar til viðbótar við 60 millj. kr. fjárheimild sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Í fjárlögum ársins 2011 var veitt 203 millj. kr. fjárveiting sem byggist á samgönguáætlun áranna 2009–2012 þar sem gert var ráð fyrir nýrri höfn og nýju skipi en í þeirri fjárveitingu er ekki gert ráð fyrir jafnmikilli dýpkun og nauðsynleg er til að tryggja siglingar Herjólfs milli Eyja og Landeyjahafnar. Ástæðurnar fyrir þeirri dýpkun eru öllum ljósar. Það er annars vegar út af náttúruhamförum og eldgosum þar sem gríðarlegt magn jarðefna barst fram sem var auðvitað ekki gert ráð fyrir upphaflega en hefði aldrei valdið þeim töfum á siglingum ef minna og grunnristara skip hefði siglt þarna á milli eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Í það heila er um að ræða mörg mikilvæg mál sem lent er í frumvarpi til fjáraukalaga. Hef ég nefnt þau stærstu sem eru Vaðlaheiðargöngin annars vegar og hins vegar samningur ríkisins og Reykjanesbæjar um kaup á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Vil ég lýsa sérstakri ánægju minni með niðurstöðu þess máls sem, eins og ég sagði, hefur lengi verið unnið að og held ég að báðir aðilar geti verið mjög ánægðir og ásáttir um þann samning sem náðist þarna.