140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekki mjög vel að mér um alla tæknilega möguleika í gjaldtöku. Ef við horfum á það fyrirkomulag sem er við gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum gæti slíkt fyrirkomulag augljóslega ekki gengið upp við Sundabrautina. Menn geta séð fyrir sér þær biðraðir sem mundu myndast. Síðan er önnur umræða hvort hægt sé að koma einhvers konar staðsetningartækjum fyrir í bílum til að reikna út gjöld. Menn hafa bent á kosti og galla við slíkt fyrirkomulagi, m.a. persónuverndarrök. Mönnum finnst það ekkert sérstaklega þægileg tilhugsun að hið opinbera viti nákvæmlega hvar þeir hafi verið að keyra eða hvert þeir hafi átt erindi. Það eru því rök með og á móti því. Sundabraut er vegur inni í byggð okkar í Reykjavík og vissulega eru aðrar leiðir færar, en ég er ekki viss um að ég mundi taka undir slíka gjaldtöku. Ég tel að það sé öðruvísi en með Hvalfjarðargöngin eða Vaðlaheiðargöngin vegna byggðarinnar.

Ég er í hópi þeirra Reykvíkinga sem líta á það sem metnaðarmál höfuðborgarbúa að bjóða upp á að hér verði flugvöllur sem þjónað geti öllu landinu. En í því er fólgin heilmikil fórn og sú fórn felst meðal annars í því að samgöngur verða erfiðari fyrir okkur Reykjavíkurbúa, það er bara staðreynd. Það er alveg eðlilegt að við gerum þá kröfu að ráðist verði í þær framkvæmdir sem standa augljóslega til bóta, munu stytta umferðartíma alveg gríðarlega í borginni og eru þjóðhagslega hagkvæmar, bæði núna, vegna þeirrar kreppu sem við erum í, og líka til langs tíma, með því að stytta umferðartímann og fækka slysum.