140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við fáum að sjá tekjuáætlunina fyrir Vaðlaheiðargöng, það er eitt af því sem vantar í umræðuna (Gripið fram í: Það vantar ekkert.) og þess vegna hafa menn verið að deila um hvort veita eigi heimildir fyrir skuldum þegar ekki er hægt að henda reiður á hverjar tekjurnar á móti eiga að vera.

Varðandi það að ríkið framkvæmi á samdráttartímum er það einfaldlega alþekkt keynesísk hagfræði sem var mikið notuð fyrir nokkrum áratugum. Nýfrjálshyggjan ýtti henni út af borðinu og núverandi ríkisstjórn hefur ekki verið með mikla burði í þá átt að framkvæma á vegum ríkisins með aukinni lántöku, einfaldlega vegna þess að skuldastaða þjóðarbúsins og ríkissjóðs er með þeim ólíkindum að það er ekki hægt. Slík efnahagsstefna hugnast mér hins vegar. Það er hins vegar ekki gert með Vaðlaheiðargöng, þau eru einhvers konar blanda af einkaframkvæmd og ríkisframkvæmd sem er mjög flókin samsuða og erfitt að henda reiður á.

Ég mun vafalaust keyra einhvern tíma í gegnum Vaðlaheiðargöngin ef þau verða að veruleika en mig langar að ljúka andsvari mínu á því að segja að ég skal gera það brosandi ef hv. þm. Kristján L. Möller lofar því að fjárans jólasveinaskiltið sem er efst í Víkurskarðinu verði tekið þaðan og sett inn í göngin.