140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er eiginlega vel við hæfi að ræða hér þetta frumvarp í kjölfar frumvarps til fjáraukalaga. Það er sami vandinn hér, það er verið að lofa til framtíðar. Málið er að í ljós hefur komið að iðgjöldin í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru of lág. Það hefur svo sem lengi verið vitað, sennilega eru fimm eða tíu ár síðan í ljós kom að það vantar iðgjöld, menn hafa bara ekki tekið á vandanum. Þetta eru um 4% af launum opinberra starfsmanna. Ég var að reyna að slá á það í tölvunni og mér sýnist það vera um 4 milljarðar á ári sem þyrfti að hækka iðgjaldið, þ.e. það yrði skuldbinding á ríkissjóð sem þyrfti að auka einmitt við fjáraukalögin eða fjárlagaliðina að sjálfsögðu.

Ég nefndi það í ræðu hér 3. maí 2005 að lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna væri tímasprengja á vinnumarkaðnum. Það er vegna þess að við erum með þrenns konar kjör í lífeyrismálum stórt séð, ef við sleppum séreignarsparnaðinum sem er frjáls. Fyrst er að nefna almennu lífeyrissjóðina sem tóku til starfa 1970, hafa sem sagt starfað í 41 ár með lagaskyldu frá 1974 og öðrum lögum frá 1980. Svo erum við með Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem hefur starfað frá 1920, að mér skilst, hann hét Lífeyrissjóður presta fyrst, og hefur sem sagt alla opinbera starfsmenn meira og minna innan borðs, reyndar ekki starfsmenn sveitarfélaga. Árið 1997 þegar þau lög sem við erum að ræða breytingu á voru sett var það í kjölfar þess sem kallað var aðlögunarsamningar. Dagvinnulaun opinberra starfsmanna voru þá orðin óeðlilega lág miðað við raunveruleg laun. Það var verið að greiða alls konar sporslur, óunna yfirvinnu og ég veit ekki hvað það hét allt saman. Það var greitt í lífeyrissjóðinn af dagvinnunni þannig að þeir áttu mjög lélegan rétt yfirleitt. Sumir voru jafnvel með tvöfalt hærri laun en nam dagvinnunni þannig að þeir voru tiltölulega illa tryggðir. Þá kom aukin krafa um að leiðrétta þetta, laga launin að greiddum launum, og þá kom upp vandi með lífeyrisréttindin. Þau voru miklu betri miðað við grunninn en hjá öðrum stéttum en þegar grunnurinn var helmingi lægri voru þau náttúrlega ekkert voðalega góð. Það sem menn vildu þá gera og ég lagði til var að opinberir starfsmenn gætu valið að hafa há laun eins og almenni markaðurinn og sambærilega léleg lífeyrisréttindi og þar eru. Þar þarf ekki nema 12% iðgjald til að standa undir réttindunum en 19% í A-deildinni. Ella gætu þeir verið með góð lífeyrisréttindi og þá lægri laun. Mér fannst að menn ættu að geta valið þar á milli og það er hægt að reikna út nánast upp á kommu og prik hvað launin ættu að vera miklu lægri fyrir betri lífeyrisrétt. Það endurspeglast nokkurn veginn í mismunandi iðgjaldi.

Þetta var ekki gert. Opinberir starfsmenn fengu hvort tveggja, bæði há lífeyrisréttindi og góð laun, a.m.k. hærri laun en hafði verið þangað til, launin voru sem sagt aðlöguð greiddum launum. Margir tvöfölduðu lífeyrisréttindi sín, ég hitti einmitt kennara sem ég gat glatt með að hann hefði tvöfaldast í lífeyrisréttindum vegna þess að grunnurinn tvöfaldaðist hjá honum.

Síðan var stofnuð þessi B-deild sem er algjört fyrirbæri í öllu þessu umhverfi og veitir miklu betri ellilífeyrisrétt, sem er reyndar með lakan örorkulífeyrisrétt, og þar hefur hlaðist upp skuldbinding vegna þess að grunnurinn hefur fylgt launum opinberra starfsmanna. Hann er verðtryggður miðað við laun sem hafa hækkað mjög umtalsvert umfram allt verðlag og allt annað sem A-deildin er bundin við. Þeir sem völdu B-deildina, menn gátu valið á milli, eru mjög vel settir í dag með mjög háan lífeyri. Það vill svo til að tekjuhæstu starfsmenn ríkisins eru með mjög háan lífeyri. Ég hef ekki spurt að því en ég hugsa að mjög margir séu með yfir hálfa milljón á mánuði í lífeyri, jafnvel 700–800 þús. Þetta þyrfti að kanna.

Þessi tímasprengja sem ég kalla svo vegna þess að þegar þarf að hækka iðgjaldið sem hér stendur til, eða þyrfti að gera, um 4% þýðir það 4 milljarða fyrir ríkið á hverju ári. Það gæti þýtt hærri skatta upp á 4 milljarða sem lenda á sjóðfélögum almennu lífeyrissjóðanna. Þeir eru með lakari lífeyrisrétt sem endurspeglast í 12% iðgjaldi. Á sama tíma og núna þarf að skerða þá, m.a. vegna lélegrar ávöxtunar og áfalls af hruninu, þurfa þeir að standa undir hærri greiðslum til opinberra starfsmanna inn í A-deildina, svo maður sleppi nú alveg að tala um B-deildina sem er ófærð í ríkissjóð. Börnin okkar borga það væntanlega, frú forseti. Það er ófært, það er ekki búið að færa þá skuldbindingu upp á 200 eða 300 milljarða, eitt stykki Icesave, inn í ríkissjóð. Einn munur á þeirri greiðslu og Icesave er að Icesave átti að borga í erlendum gjaldeyri en þetta getum við borgað í krónum, það er mikill munur á því.

Þetta er tímasprengja vegna þess að skuldbinding B-deildarinnar vex og vex og það á eftir að greiða hana og það þarf að bæta við 4% iðgjaldi í A-deildina. Það er þá greitt af fólkinu í almennu sjóðunum sem er verið að skerða. Það er verið að skerða út af áfallinu en líka út af því að ekki nást lengur viðmiðunarvextirnir 3,5% sem gert var ráð fyrir í útreikningum á lífeyrissjóðunum. Það er algjör misskilningur sem fram hefur komið, frú forseti, að það sé einhver ávöxtunarkrafa. Sjóðirnir geta að sjálfsögðu ekki gert neina kröfu. Ef þeir fá ekki 3,5% ávöxtun verða þeir bara að sætta sig við það sem þeir fá. Ef þeir kaupa ekki skuldabréf með til dæmis 3% vöxtum sitja þeir uppi með þá á bankareikningi með 0,15% vöxtum. Sjóðirnir eru í þeirri klemmu að þurfa að fjárfesta og tapa um leið á lægri ávöxtun en þetta ávöxtunarviðmið gefur til kynna. Ef það verður mjög lengi sem þetta ávöxtunarviðmið næst ekki þurfa menn að sjálfsögðu að fara að skerða lífeyrinn eða hækka iðgjaldið — eða hækka ellilífeyrisaldurinn sem ekki hefur verið bent á í þessum tillögum. Það er það sem ég legg til. Ég ætla meira að segja að flytja frumvarp um að hækka ellilífeyrisaldurinn. Fólk er svo miklu sprækara núna, getur alveg unnið lengur og vill það oft og tíðum. Mér finnst að þeir sem vilji vinna lengur eigi endilega að fá að gera það og borga þá skatta og skyldur, og inn í lífeyrissjóð og afla sér meiri réttinda í lífeyrissjóði og hjálpa þannig til að standa undir þessu kerfi.

Það eru sem sagt þrjár leiðir, þar af að hækka iðgjaldið eða skerða réttindin og hvort tveggja er slæmt. Það er mjög erfitt að hækka iðgjaldið sem stendur, atvinnulífið stendur ekki undir því og ríkissjóður ekki heldur. Þess vegna væri eitt ráð að hækka ellilífeyrisaldurinn, t.d. að hætta að banna opinberum starfsmönnum að vinna eftir sjötugt. Margir þeirra eru mjög færir og ég vil að þeir megi vinna til áttræðs þess vegna. Góður kennari getur alveg unnið til 75 ára aldurs eða áttræðs ef hann hefur löngun til þess og hann heldur áfram að vera góður kennari þótt hann verði 75 ára, ég lofa því. Ef hann hefur hins vegar verið slakur kennari verður hann það áfram. [Hlátur í þingsal.]

Þetta frumvarp segir mér að þetta er eiginlega allt í sama stíl og fjáraukalögin og fjárlögin. Það er verið að lofa inn í framtíðina. Nú á bara að beita þessu ákvæði um 15% mun á eignum og skuldbindingum sem var sett einu sinni. Einu sinni var það 10% en eftir hrun var það sett upp í 15%. Margir lífeyrissjóðir hafa hins vegar ekki notað sér að þeir gætu frestað vandanum, þeir hafa tekið á honum og skert vegna þess að það er alveg eins gott að gera það strax. Það er alveg eins gott að skerða strax og að fresta vandanum. Þetta vita líka hagsýnar húsmæður. Ef það er fjara í buddunni og heimilisbókhaldinu byrja þær strax að skerða útgjöldin, þær eru ekkert að bíða eftir því að eitthvað enn þá verra dynji yfir þær eftir tvö, þrjú ár. Þessi hugsun hér gengur út á það að bíða, leyfa vandanum að malla og blómstra og er eiginlega í takt við það að láta börnin okkar borga skattana.