140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

staðfesting á aðalskipulagi Skaftárhrepps.

139. mál
[18:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka áhuga þeirra þingmanna sem hér hafa talað á samskiptum umhverfisráðuneytisins við Skaftárhrepp og bið þingmenn þó að sýna sanngirni. Það tapar enginn á því að sýna sanngirni í þessu máli, ekki nokkur maður.

Ég þarf ekki sérstaklega á liðsstyrk þingmanna að halda sem leggja sig fram um að ala á tortryggni og sundurlyndi og allra síst þegar um sveitarfélög er að ræða sem þurfa virkilega á því að halda að við sem hér erum kosin til þess að ráða ráðum á Alþingi stöndum með þeim en ekki á móti þeim.

Ég vil hins vegar segja varðandi athugasemd hv. þingmanns um tilkynninguna varðandi friðlýsingu á Langasjó og hluta Eldgjár að þá var það nú svo að þær upplýsingar fóru út í fjölmiðla þegar fyrir lá að auglýsingin væri tilbúin og var það sérstaklega að ósk sveitarfélagsins.