140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég mun leitast við að svara hér nokkrum spurningum sem hv. þm. Bjarni Benediktsson beindi til mín áðan. Hann er vonandi fyrir framan sjónvarp.

Ég tel ekki að verðbólgan sé stærsta vandamálið í íslensku efnahagslífi í dag. Við munum hins vegar búa hér áfram við viðvarandi verðbólgu ef við breytum ekki algjörlega um peningamálastefnu heldur höldum áfram á þeirri leið að vera með fljótandi örmynt í frjálsum flutningi fjármagns. Þá verður verðbólgan vandamál og verðtryggingin þar með líka.

Það var ekki óstjórn í ríkisfjármálum sem olli hruninu þó að óstjórn í ríkisfjármálum hafi vissulega verið svolítið mikil, það voru óábyrgir bankar og óábyrgir fjármagnseigendur sem hafa bæði belti og axlabönd þegar kemur að verðtryggðum lánveitingum. Þeir hafa enga hagsmuni af því að halda aftur af sér eða halda verðbólgu í skefjum.

Ef ég gæti mundi ég afnema verðtryggingu á morgun og ég mundi líka banna hana nema þegar kemur að útgáfu langtíma ríkisskuldabréfa. Það mun aldrei ganga upp að bjóða upp á verðtryggð og óverðtryggð lán samtímis og ætlast til þess að þau geti verið í samkeppni vegna þeirrar yfirburðastöðu sem verðtryggð lán eru. Þau eru í raun áhættulaus og á þeim fákeppnismarkaði sem Ísland er og verður sennilega alltaf mun einfaldlega aldrei nást viðhlítandi staða fyrir neytendur. Það verður að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum og koma fjármála- og lánakerfinu í eitthvert eðlilegt horf eins og gerist í nágrannalöndum okkar. Það er það sem íslenskur almenningur á skilið að búa við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)