140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Amal Tamimi fyrir þessa umræðu. Ég held að við Íslendingar hljótum að vera því sammála að það sé öllum í hag að vel sé tekið á móti innflytjendum og þeir sem aðstoð þurfa fái hana og þeir sem koma til landsins eða vinna hér aðeins tímabundið í upphafi njóti aðstoðar líka vegna þess að þeir gætu verið framtíðarþegnar samfélagsins.

Innflytjendur eru ekki einsleitur hópur. Þeir koma frá mörgum löndum, frá ólíkum menningar- og tungumálasvæðum með ólíkan bakgrunn og hæfni til að aðlagast nýju samfélagi. Því þarf stefna stjórnvalda í innflytjendamálum að taka á fleiri þáttum en þeim að stýra komu útlendinga til landsins.

Ég vil leggja áherslu á að íslenskukennsla til handa innflytjendum verði lögbundin og hún verði veitt ókeypis vegna þess að það er grundvallarforsenda þess að verða virkur þegn í samfélaginu að maður kunni það tungumál sem samfélagið notar. Lögin um skilyrði fyrir t.d. ótímabundinni búsetu hér gera kröfu um íslenskunám eða aðgengi að því. Það hlýtur að vera hagur allra að móta stefnu um íslenskukennslu fyrir alla innflytjendur og samhliða þarf að auka skilning á mikilvægi sérhæfðrar kennaramenntunar á þessu sviði því íslenska sem móðurmál er annað en íslenska sem erlent tungumál.

Síðast en ekki síst, frú forseti, þarf að nýta hæfileika innflytjenda, hæfileika nýrra Íslendinga, sem ráðgjafa innan samfélagsins til að styrkja móðurmálskennslu innflytjenda og til að styrkja þá sem eru í námi við að tengja hugtök móðurmálsins við hugtök íslenskunnar til að auðvelda nemendum á öllum aldri nám. En fyrst og síðast, (Forseti hringir.) þurfum við að ræða mál innflytjenda af virðingu fyrir fólki og hafa ætíð í huga að við erum að tala um líf fólks sem hefur kosið að setjast að á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)