140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:33]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Amal Tamimi að hefja þessa umræðu um málefni innflytjenda. Það að vilja byrja nýtt líf í framandi landi er stór ákvörðun og mín reynsla af því að hafa búið erlendis og hafa kynnst innflytjendum á Íslandi og annars staðar er að þeir örva flóru mannlífs og menningar meira en margt annað.

Margt af því sem fram hefur komið hér í dag er mikilvægt og sérstaklega sú hugmynd að tengslin við móðurmálið haldist með úrbótum í móðurmálskennslu innflytjenda en það er þó ekki síður mikilvægt að aðgengi að íslenskukennslu sé víðtækt og tryggt með lögum. Þar virðist hafa orðið misbrestur á en það er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera í þessum málum að þetta sé tryggt.

Það verður að útrýma þeirri hugsun hér á landi að innflytjendur séu fyrst og fremst vinnuafl og eigi því eingöngu einhver tímabundin réttindi. Innflytjendur og erlent vinnuafl sem hefur komið hingað vegna sérstakra framkvæmda er fólk eins og annað og á að sýna því alla þá virðingu sem því ber.

Vandamál innflytjenda eru margvísleg eins og fram hefur komið. Við höfum heyrt í ráðherra innflytjendamála og þingmönnum allra flokka og hafa ræður þeirra flestar verið á einn veg, þ.e. að þeir virðast vilja gera hag innflytjenda sem mestan og bestan eins og kostur er, og er gleðilegt að heyra það. Orð eru til alls fyrst og vonandi verður þá í framhaldinu eitthvað um efndir í þessu mjög svo mikilvæga máli. Ég leyfi mér þó að benda á að skorin hafa verið niður framlög til innflytjendamála, skorin hafa verið niður framlög til rannsókna á málefnum innflytjenda. Það mjög svo merkilega fyrirbæri sem á sér stöðu í Reykjavíkurakademíunni og hefur unnið að innflytjendarannsóknum er mjög fjárvana. Hér hafa menn talað mikið og fallega og ég skora einfaldlega á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn sem hafa tekið til máls að fylgja málinu eftir af fullri festu en láta ekki orðin falla dauð í þingsal.