140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:23]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni er þetta viðleitni tveggja þingmanna sem ekki eru þingmenn þessa kjördæmis til þess að koma með ábendingu, tillögu að nýrri leið, nýrri nálgun, hvað varðar svæðið sem áfangastað fyrir ferðamenn og Íslendinga alla og líka nálgun í samgöngumálum. Ég minni á að þetta er þingsályktunartillaga sem lögð er fram til þess að fá umræðu og reyna að fá skýrari mynd af vilja þingsins í þessum efnum. Ég held að enginn tími sé betri eða verri í þeim efnum. Málið hefur verið í hnút. Því miður hefur ferlið allt saman tekið alveg gríðarlega langan tíma vegna málaferla og ósamstöðu sem verið hefur um þær leiðir sem í boði eru þarna.

Ég tek hjartanlega undir það með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að það er brýn þörf á að leysa samgöngumál á þessu svæði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og hef talað fyrir því, ekki endilega í tengslum við þetta mál en í tengslum við umræðu t.d. um Vaðlaheiðargöng og fleiri samgönguframkvæmdir, að það sé þörf á því a.m.k. eins og staðan er núna í ríkisrekstrinum og á atvinnumarkaði, hjá verktakafyrirtækjum, að gefa svolítið í í útboðum og framkvæmdum á vegum hins opinbera. Við vitum að þarna þarf að taka til hendinni og lagfæra veginn eftir sunnanverðum Vestfjörðum og það er betra að nýta þá tímann núna til þess og fjármagna það með einum eða öðrum hætti.