140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég kem hér upp aftur er að ég vil leggja áherslu á það að sjálfur hef ég ekki myndað mér endanlega skoðun á því hvar vegur á þessu svæði eigi að liggja. Ég vil taka tillit til margra sjónarmiða en kannski fyrst og fremst sjónarmiða Vestfirðinga sjálfra sem hafa mestra hagsmuna að gæta í þessu efni. Frumforsenda, að mati þess sem hér stendur, er að vegurinn verði á láglendi. Það er fullreynt að leggja vegi um háar hlíðar og upp yfir heiðar á Vestfjörðum, svo sem eins og víðar á landinu. Við þekkjum það sem þetta land byggjum að það er fullreynt.

Reyndar er það svo að víða á landinu hefur það komið ágætlega út að leggja vegi í gegnum skóglendi. Nægir þar að nefna þjóðveg 1 um Vaðlareit í Eyjafirði sem var á sínum tíma umdeildur en var að lokum lagður í gegnum fallegan skógarreit í Vaðlaheiðinni neðanverðri. Þykir mörgum það til prýði í dag og eitt fegursta vegastæði á norðanverðu landinu en það er önnur saga. Ég kem hér engu að síður til að árétta að skoðun mín er ekki endanleg hvað varðar vegalagningu á Vestfjörðum. Þar er að mögu að hyggja, svo sem eins og hugsanlegri uppbyggingu þjóðgarðs á þessu svæði.

Ég spyr enn á ný hvort hæstv. umhverfisráðherra sé mér þó sammála um það eina atriði að þessi vegur, sem ef til vill mun liggja í gegnum komandi þjóðgarð um þetta svæði, verði þó að minnsta kosti á láglendi.