140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég geri athugasemdir við þessa málsmeðferð. Mér finnst hún í fyrsta lagi vera eitthvað óljós. Annars vegar virðast mismunandi skilaboð hafa borist inn í efnahags- og viðskiptanefnd og hins vegar fjárlaganefnd um það hvað menn mættu sjá, með hvaða formerkjum og hvort menn mættu segja frá því. Ef rétt er, sem hv. þm. Helgi Hjörvar segir, að nú sé búið að aflétta trúnaði af þessum gögnum held ég að það sé þá að minnsta kosti rétt að hæstv. forseti geri þær breytingar á dagskrá þingsins að allir þingmenn geti kynnt sér það sem í spilunum er.