140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að segja það sama og hv. þm. Pétur Blöndal sagði, ég ætla að taka undir orð hans. Þetta minnir óþægilega mikið á það þegar Icesave-málið var trekk í trekk í umfjöllun í þinginu og alltaf voru að koma ný og ný gögn og alltaf þurftum við að standa hér og heimta að fá að sjá gögnin og allt slíkt. Í morgun var hulunni létt af þessum samningum ef ég skil þetta rétt. Í morgun gátu þingmenn kynnt sér þessa samninga og það á að afgreiða málið í dag. Ég get ekki talið þetta eðlileg vinnubrögð því að þessi hluti fjáraukalaganna skiptir verulegu máli, þ.e. þeir samningar sem þarna er verið að gera.

Það sem forseti ætti að sjálfsögðu að gera núna er að taka þetta mál af dagskránni og gefa þingmönnum færi á að kynna sér þá samninga sem þarna eru svo að við lendum ekki í sömu umræðunni og orrahríðinni sem við þurftum að standa í í (Forseti hringir.) Icesave-málinu til að koma því á þann stað sem það fór reyndar á endanum.