140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það sem er vont í þessu máli er hversu erfiðlega það gekk fyrir okkur þingmenn að fá þennan samning fram. Við í fjárlaganefnd þurftum að ganga mjög á eftir fulltrúum fjármálaráðuneytisins til þess að þeir undir lok fundarins réttu samninginn í einu eintaki yfir borðið til hv. formanns nefndarinnar. Þá er það bara það eintak og síðan er fundi lokið og málið tekið út. Vissulega gátum við spurt fulltrúana út úr en það er engin alvöruumræða og engin gagnrýnin umræða.

Það er alveg augljóst að fjárlaganefnd gat ekki fullnægt því skilyrði sínu að hafa eftirlit með því sem framkvæmdarvaldið er að gera, fjármálagjörningum þess. Það sér það hver maður að ekki er hægt að kanna samning sem við sjáum ekki fyrr en fundinum er raunverulega lokið og umræðu lokið á þeim fundi. Þar fyrir utan er auðvitað það almenna sjónarmið (Forseti hringir.) að Alþingi skuli ekki geta kannað þau skjöl sem liggja til grundvallar því að taka ákvörðun í salnum. Það segir sig auðvitað sjálft að það gengur ekki upp.