140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þingið er komið í ákveðið uppnám út af breytingum á starfsáætlun þar sem verið er að ganga frá fjáraukalögum í dag þó að það hafi verið ákveðið á fundi fjárlaganefndar fyrir einhverjum dögum eða vikum að breyta dagskránni við afgreiðslu fjáraukalaga en samkvæmt henni hefði 2. umr. um fjáraukalögin átt að fara fram í dag og 3. umr. 30. nóvember. Það er alveg greinilegt að þessi breyting á starfsáætlun var ótímabær. Ekki hefur gefist nægur tími til að fara yfir fjáraukalögin. Það veitti ekkert af þeim tíma sem upprunalega var áætlaður til þess í dagskrá þingsins. Það liggur ekki fyrir með hvaða hætti sparisjóðirnir verða seldir. Það hefur ekki verið kynnt þingmönnum, menn hafa ekki fengið tíma til að kynna sér það.

Það liggur ekki fyrir með hvaða hætti Vaðlaheiðargöng verða fjármögnuð. Það er allt mjög gruggugt í kringum það. Þó að ríkisendurskoðandi sé að vinna skýrslu um málið ætlar Alþingi ekki að bíða eftir þeirri skýrslu heldur afgreiða málið með bundið fyrir augun. Þetta eru óboðleg vinnubrögð, frú forseti, og forseti þingsins ber ábyrgð á þeim.