140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

3. umr. um fjáraukalög og salan á Byr.

[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 17. janúar sendi ég bréf til forsætisnefndar með ósk um að ríkisendurskoðandi skrifaði skýrslu um ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs utan fjárlaga. Nú heyrði ég af því rétt áðan, hjá fréttamanni, að drög að þessari skýrslu væru komin til fjármálaráðuneytisins, væntanlega til skoðunar. Mér finnst það dálítið undarlegt og það er spurning hvort þessi hraði á málum hérna tengist þessu eitthvað.

Ég spyr: Af hverju er þessi hraði? Hvað liggur á? Hvað veldur því að hv. Alþingi þarf að drífa sig í því að samþykkja fjáraukalög?

Svo er það önnur spurning: Af hverju er þessi leynd? Það er verið að sóa miklu fjármagni, 11,2 upp í 19,8 milljörðum, og það er einhver leynd yfir því. Af hverju er leyndin? Ég bara næ því ekki. Af hverju mega þingmenn ekki fá að vita um hvað þeir eru að greiða atkvæði?