140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að ríkisstjórnin þarf frið til að standa við það sem hún ætlaði að gera langar mig að minnast á það sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér 4. október, að skoða frekari leiðréttingu á húsnæðislánum heimilanna. Til þessa hefur ekkert spurst, hvorki frá því að ríkisstjórnin tók við völdum né frá því að forsætisráðherra fór í þá vegferð að lýsa þessu yfir eftir að hæstv. forsætisráðherra fékk í hendur rúmlega 33 þús. undirskriftir undir áskorun um að fara í frekari leiðréttingu á lánum heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu strax að þau gætu ekki tekið þátt í því ferli í ljósi þess hvernig farið var með síðasta sáttaferli, eða hvað á að kalla það, sem samtökin tóku þátt í. Við hljótum þess vegna að kalla eftir því — í ljósi þess að ríkisstjórnin þarf bara frið til að koma málum á koppinn, nú virðist ríkisstjórnin hafa mikinn frið því að ekki koma málin frá henni, a.m.k. ekki inn í þingið — og spyrja hvort ekki sé eðlilegt að gera þá kröfu að hæstv. forsætisráðherra, sem verður hér til svara í fyrramálið, lýsi því fyrir okkur hvort sú vinna sem átti að hefja 4. október sé í gangi.

Ég velti þessu upp, kæru þingmenn, því að við getum ekki endalaust setið undir því að ráðherrar eða framkvæmdarvaldið lofi að gera ákveðna hluti og svo gerist ekki neitt, hvort sem það er fjölgun starfa upp á þúsundir eða að skoða aftur og reyna að finna leiðir til að leiðrétta umrædd lán. Ég minni á umræðu eða yfirlýsingu sem ég kom með um daginn í þinginu í framhaldi af þætti sem var á Stöð 2, Íslandi í dag, þar sem farið var yfir fasteignamarkaðinn. Þar var niðurstaðan sú að helsta vandamálið fyrir því að hagvöxtur rjúki ekki af stað samkvæmt því sem þar kom fram var skuldir heimilanna. Ríkisstjórnin sem virðist þurfa miklu meiri tíma til að klára málefni heimilanna ætti kannski að fara að koma sér að verki, koma sér að því sem hún þykist hafa verið kosin út á.