140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:25]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Björns Vals Gíslasonar til að upplýsa forseta um að það var, eins og kemur fram í nefndarálitinu, vissulega samkomulag um það í fjárlaganefnd að greiða fyrir því að framgangur fjáraukalaga yrði hraðari en starfsáætlun hafði gert ráð fyrir. Í því samkomulagi var sömuleiðis gert ráð fyrir því hvernig hlutirnir yrðu unnir. Síðan kemur það upp að okkur þykir skorta á upplýsingagjöfina ásamt því að það hikstar aðeins í vinnunni. Ástæða þeirra mótmæla sem við höfum haldið uppi við þetta er einföld og skýr: Okkur þykir upplýsingar skorta til þess að við getum tekið nægilega vel upplýsta ákvörðun í því máli sem hér liggur undir. Það er bara einföld skýring í þessum efnum.

Aðeins varðandi tímasetningarnar. Tíminn líður mishratt í hugum manna. Mig minnir hins vegar að það hafi verið á mánudaginn sem við komumst að þessu (Forseti hringir.) samkomulagi, fyrir réttri viku.