140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

lengd þingfundar.

[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég get ekki rætt efnislega um málið af því að ég hef ekki efni málsins undir höndum, það vantar gögn og það er náttúrlega alveg með ólíkindum. Við ræddum í gær einmitt um málþóf og andsvör og annað slíkt í tilefni ákveðins máls sem þá var flutt. Þetta er ekki málþóf. Það er aldrei neinu svarað. Það er vandamálið. Vandamálið er að ráðherrar svara ekki. Hæstv. forseti svarar ekki spurningum þingmanna: Hvar get ég fengið þessi gögn? Hvaða tíma hef ég til að lesa þau?

Ég get ekki tekið þátt í þessu, frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín sagði áðan að … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Ragnheiður Elín Árnadóttir heitir þingmaðurinn fullu nafni.)

… Árnadóttir, já, fyrirgefðu, þingflokksformaður minn, háttvirtur. [Háreysti í þingsal.] Ég get ekki tekið þátt í umræðunni, eins og hv. þingmaður benti á, vegna þess að gögn vantar.