140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:28]
Horfa

Amal Tamimi (Sf):

Herra forseti. Ég er fædd og uppalin í Jerúsalem, í Palestínu. Ég var sjö ára þegar stríðið 1967 geisaði. Ég veit hvað hernám þýðir. Ég upplifði hræðilega hluti þegar ég sá og heyrði sprengingar í kringum okkur. Ég var hrædd vegna þess að það var ekkert rafmagn. Við vorum í geymslunni undir húsinu okkar. Allir nágrannar okkar voru þar; karlmenn, konur og börn. Sum þeirra vildu flýja frá Jerúsalem en faðir minn sagði að það væri enginn staður að fara til, öll Palestína væri undir yfirráðum Ísraels. Hann missti allt í Jaffa í stríðinu 1948 og ákvað að hann vildi frekar deyja í Jerúsalem en að vera flóttamaður í öðru landi. Sem betur fer vorum við ekki drepin.

Eftir sex daga stríðið var útgöngubann. Ísraelsmenn sögðu að við mættum ekki fara út úr húsinu vegna þess að þeir vildu telja okkur og sjá hvað við værum mörg. Útgöngubannið stóð yfir í um vikutíma. Bróðir minn sem fór til Íslands árið 1966 í skoðunarferð var enn á Íslandi þegar talningin fór fram og missti við það réttindin til að vera í Palestínu. Hann gat ekki snúið til baka vegna þess að hann var ekki í landinu þegar Ísrael náði yfirráðum. Mamma mín sótti oftar en tíu sinnum um dvalarleyfi fyrir hann á þeim forsendum að pabbi væri dáinn og enginn til að sjá um okkur. En það gekk ekki og hann mátti ekki snúa aftur til Jerúsalem. Ísrael var stofnað á þeirri forsendu að fyrir 3000 árum hefðu Ísraelsmenn átt landið og þess vegna ættu þeir rétt á að koma til baka — en ekki bróðir minn.

Hópur flóttakvenna kom til Akraness árið 2008. Þessar konur eru þriðja kynslóð flóttamanna, allt frá árinu 1948, og þær eru enn þá ríkisfangslausar. Ég kom til Íslands 1995 með ferðaskjöl frá Ísrael og í þeim stóð að ég héti Amal og byggi í Jerúsalem. Ég var skráð ríkisfangslaus. Árið 1998 missti ég réttindin til að framlengja ferðaskjölin, en kannski er ég heppin að hafa komið hingað á þeim tíma þegar lög um útlendinga voru ekki eins ströng og nú. Ég komst beint inn í kerfið og náði að framlengja atvinnuleyfi og dvalarleyfi árlega. Ég sótti þrisvar um ríkisborgararétt og fékk hann svo árið 2002 þegar ég hafði búið hér á landi í sjö ár. Við það breyttist allt hjá mér. Þetta var fyrsta ríkisfangið mitt. Ég hafði aldrei áður verið með ríkisborgararétt neins staðar. Ég fann að ég tilheyrði því landi sem gaf mér það að vera ríkisborgari. Ég get farið hvert sem er, sagst vera frá Íslandi og sýnt vegabréf sem sannar það. Ef ég fer til útlanda og lendi í vandræðum get ég haft samband við sendiráðið. Ég get allt. Ég er með vegabréf.

Margar vinkvenna minna og margir vina minna voru hissa á því að ég væri svona spennt og glöð yfir því að vera með vegabréf. Það er erfitt fyrir fólk sem er fætt með ákveðin réttindi að skilja hvað það þýðir fyrir þann sem hefur verið ríkisfangslaus að vera kominn með ríkisborgararétt. En á sama tíma get ég ekki snúið aftur til Jerúsalem til að búa þar því að samkvæmt ísraelskum lögum er ég búin að missa réttindin til að vera Palestínumaður. Ég get farið þangað og dvalið í þrjá mánuði með ferðamannaáritun.

Ég hef oft verið spurð: Hvenær fórst þú heim? Og ég spyr til baka: Hvar er heima? Ég svara: Heima er þar sem maður finnur að maður er virtur sem manneskja. Ef maður hefur réttindi er það staðurinn sem maður getur alltaf komið til og búið á. Fyrir mig er það Ísland. Ísland er heima.

Ég fór til Palestínu í júní. Ástandið þar er hræðilegt; múrinn, landamæraeftirlit á tilbúnum landamærum Ísraelsmanna, hermenn úti um allt. Ferðin frá Jerúsalem yfir til Ramallah sem ætti að taka 15 mínútur getur tekið þrjá til fjóra tíma. Fólk sem fer þangað í skóla eða vinnu getur þurft að bíða það lengi til að komast leiðar sinnar. Ímyndið ykkur að við værum með landamæraeftirlit milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og að við þyrftum að sækja um leyfi með margra mánaða fyrirvara áður en maður gæti heimsótt frænda sinn eða frænku, jafnvel foreldra.

Herra forseti. Allt sem vantar er mannréttindi og ég vona að með viðurkenningu á Palestínu gefum við fólki frá Palestínu von um bjartari daga.