140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir það. Varðandi tillöguna vildi ég gjarnan bara heyra sem fyrst í hvaða veru hv. þingmaður vill breyta henni hvað varðar 6. gr. Það er hið besta mál. Væri ágætt að heyra það áður en hún kemur til atkvæða.

Varðandi hins vegar þann þátt sem kom fram í máli hv. þingmanns, um það að við flutningsmenn tillögunnar um breytingar á fjárveitingum til heilbrigðismála treystum okkur ekki til niðurskurðar í þeim málaflokki, verð ég að hryggja hv. þingmann með því að það er ekki rétt. Það er langur vegur þar frá. Þær hugmyndir hafa áður komið fram frá Sjálfstæðisflokknum þegar hann var í stjórnarmeirihluta, sem lutu í þá veru, um endurgerð á heilbrigðiskerfinu. Við erum einfaldlega þeirrar skoðunar að það verklag sem hefur verið ástundað síðastliðin þrjú ár, með tilheyrandi niðurskurði, gangi ekki lengur. Menn valdi meiri skaða en ávinningi með þeim tillögum sem fyrir liggja. Það hefur aldrei staðið á okkur að standa í niðurskurði.

Ég minni hv. þingmann á að í fyrsta skipti í þingsögunni flutti minni hluti tillögu um meiri niðurskurð á fjárlögum en ráðandi stjórnvöld lögðu til. Það var andstætt við fyrri stjórnarandstöðu sem alltaf var með aukin útgjöld. Það er því ómaklegt að bera okkur þetta á brýn. Það er langur vegur þar frá að við ástundum slíka pólitík.

Til viðbótar erum við líka með tillögunni ekki að gera ráð fyrir auknum útgjöldum. Það má deila um þær leiðir sem við viljum fara til að draga úr útgjöldum á móti, vissulega, en við erum ekki að leggja fram tillögu sem eykur útgjöld ríkissjóðs, þvert á móti. Það færi betur oft á tíðum að þeir sem leggja fram hugmyndir (Forseti hringir.) í fjárlagavinnuna kæmu fram með sambærilegar tillögur.

Ég vil undirstrika það að í fyrsta skipti í þingsögunni lagði minni hluti (Forseti hringir.) á Alþingi fram auknar niðurskurðartillögur langt umfram tillögur stjórnarliða og bauð upp á samstarf um það. Það var ekki þegið, því miður.