140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt, það er mikilvægt að ræða forgangsröðun. En ég held að það sé gagnlegra að ræða þá hina stóru drætti í því. Við getum endalaust tekið einstaka liði og stillt þeim upp hverjum gegn öðrum. Við getum búið til þúsund dæmi út úr fjárlögunum og spurt: Finnst þér þetta vera mikilvægara en hitt? Það eru engin einhlít svör við því.

Ef maður tekur einhverja tvo óskylda hluti og leggur þá saman og spyr: Er þetta mikilvægara en hitt? getur orðið fátt um svör í þeim efnum. Það er ekki stóra viðfangsefnið í mínum huga heldur að skoða forgangsröðunina á breiðari grundvelli þegar við veltum til dæmis fyrir okkur velferðarkerfinu eða heilbrigðiskerfinu sem slíku á móti rekstrarkostnaði almennt eða stofnkostnaði eða öðru slíku. Það eru stóru línurnar sem mjög mikilvægt er að ræða og það höfum við reynt að gera. Við höfum reynt að útfæra aðgerðir okkar í kringum það. Ég er alveg tilbúinn í slíkar umræður um þannig forgangsröðun en mér finnst erfitt að stilla upp dæmum um (Forseti hringir.) einstaka óskylda liði og eiga að fara að gerast dómari í því hvort þetta eða hitt sé mikilvægara en eitthvað annað.