140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fangelsismál.

[15:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Ég vænti þess að þetta nái inn í fjárlög sem samþykkt verða nú fyrir komandi ár. Málið hefur fengið góða og ítarlega kynningu á meðal stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmenn þekkja vel til þess. Þetta hefur verið að velkjast í kerfinu í hálfa öld og vonandi sér núna fyrir endann á þeim deilum sem hafa verið um málið, þó að um það sé mjög breið samstaða hygg ég á Alþingi. Ég held að þverpólitískt samstaða sé um málið en þá er ekki þar með sagt að hver einasti þingmaður sé sáttur við þessa niðurstöðu. Málið hefur verið umdeilt en ég vona að nú sjái fyrir endann á þeim deilum og við ráðumst í þetta verkefni. Þetta er brýnt úrlausnarefni. Þetta er mikilvægt atvinnumál, (Forseti hringir.) fjöldi fólks kemur til með að fá atvinnu við að reisa hið nýja fangelsi.