140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna.

[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og þau skilaboð að kynna eigi niðurstöðurnar í næstu viku. Ég spyr þó hæstv. ráðherra hvort í framhaldi af því verði ekki sest niður með Hagsmunasamtökum heimilanna og hugsanlega einhverjum þingmönnum til að athuga hvort hægt sé að byggja á tillögunum. Auðvitað vitum við ekki hvað mun standa í plagginu, það er augljóst.

En allur þessi seinagangur í því að reyna að laga og bæta stöðu heimilanna er vitanlega með ólíkindum. Hann er í rauninni miklu alvarlegri en sá seinagangur sem hæstv. forsætisráðherra sakar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um. Ætli þeir hagsmunir sem eru í húfi hjá heimilunum séu ekki mun meiri en þeir hagsmunir sem hæstv. forsætisráðherra er með eindæmum að reyna að blása upp.

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að einhver niðurstaða er að fást í þessa vinnu (Forseti hringir.) en við hljótum að hafa hug á því að vita hvert framhaldið verður.