140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila, bænda og einyrkja sem byggist á lögum nr. 107/2009. Við lestur skýrslunnar verður ekki annað sagt en heilt yfir hafi skuldaúrvinnsla heimila og fyrirtækja gengið vel og jafnræðis verið gætt gagnvart viðskiptavinum í samræmi við lög, samkomulag og þær verklagsreglur sem liggja fyrir þó að vissulega megi finna einstaka undantekningu þar á. Við erum á góðri leið með að ljúka þeirri skuldaleiðréttingu sem lagt var af stað með árið 2009 og allt bendir til þess í nýlegri þjóðhagsspá að þær aðgerðir séu að skila sér í bættum hag landsmanna þótt vissulega séu erfiðleikar enn til staðar hjá mörgum heimilum.

Athugasemdir nefndarinnar snúa fyrst og fremst að þrem þáttum; að lántakar með lánsveð hjá þriðja aðila fá minni skuldaniðurfellingu en þeir sem voru með 80–100% lán hjá bönkum, að 110%-leiðin hafi verið of þröngt útfærð og einfaldari og samræmd framkvæmd hefði flýtt fyrir afgreiðslu mála, og að lokum að sú sérstaða sem er hjá bændum við skuldaúrvinnslu þar sem ekki er hægt að selja íbúðarhúsnæði frá jörðinni, eigi þeir að halda heimilum sínum verði þeir að fá að halda bújörðum sínum líka. Allt eru þetta réttmætar ábendingar sem eru til skoðunar hjá stjórnvöldum og undirstrika mikilvægi eftirlitsnefndarinnar svo tryggja megi rétt fólks og fyrirtækja og hraða skuldaúrvinnslu sem kostur er.

Stefnt er að því að framlengja störf nefndarinnar um eitt ár og er það vel. Sá fjöldi einstaklinga og heimila sem hafa uppfyllt skilyrði um sértæka skuldaaðlögun sýnir að þetta skuldaúrræði hefur ekki nýst nógu mörgum sem skyldi. Ekki hefur verið greint með fullnægjandi hætti hvað veldur, en þetta eina úrræði sem miðar að því að ráða bót á heildarvanda einstaklinga og heimila hefur ekki (Forseti hringir.) nýst sem skyldi. En það eru jákvæð teikn á lofti um að veruleg hreyfing sé komin aftur á húsnæðismarkaðinn og bendir það til að skuldaúrvinnslan sé að skila sér.