140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

raforkulög.

305. mál
[19:45]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Sérleyfisstarfsemi fyrir dreifingu og flutning er sá hluti raforkukerfisins sem ekki lýtur samkeppnislögmálum og þegar svo háttar til er eftirlit haft með verðlagningu fyrirtækja og þeim veitt rekstrarlegt aðhald þar sem markaðsöflin gera það ekki.

Raforkueftirlitinu er ætlað að veita raforkufyrirtækjum nauðsynlegt aðhald til að neytendur búi við afhendingaröryggi á raforku gegn sanngjörnu verði fyrir dreifingu og flutning. Orkustofnun hefur eftirlit með sérleyfisstarfsemi flutningsfyrirtækisins Landsnets og dreifiveitna samkvæmt raforkulögum. Stofnunin setur fyrirtækjunum tekjumörk sem taka tillit til rekstrarkostnaðar, afskrifta, orkutapa og arðsemi auk hagræðingarkröfu. Jafnframt er mikilvægur þáttur í starfi Orkustofnunar eftirlit með gæðum raforku og afhendingaröryggi hennar.

Í 31. gr. raforkulaga er kveðið á um að til að standa undir kostnaði vegna eftirlits samkvæmt lögunum skuli sérleyfisfyrirtækin greiða gjald af raforku sem fer um kerfi þessara aðila. Gjaldið á flutningsfyrirtæki nemur nú 0,2 aurum á hverja kílóvattstund en dreifiveiturnar greiða 0,5 aura á hverja kílóvattstund. Með frumvarpi þessu er lagt til að eftirlitsgjöldin verði hækkuð í 0,4 aura á kílóvattstund fyrir flutningsfyrirtæki og 1 eyri fyrir dreifiveitur. Lagt er til að gjaldið verði hækkað til að mæta auknum kostnaði sem leggst á raforkueftirlit Orkustofnunar og varð til vegna laga nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum, þar sem ákvæði raforkulaga um tekjumörk voru tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Eftirlitinu er nú skylt að kaupa utanaðkomandi þjónustu sérfróðra aðila sem eru því til ráðgjafar um afmarkaða þætti við ákvörðun tekjumarka sem lúta annars vegar að mati af vegnum fjármagnskostnaði og hins vegar hagræðingarkröfu. Samfara þessum breytingum á raforkulögum var framkvæmd úttekt á starfsemi raforkueftirlitsins í vor. Úttekt á eftirlitinu var framkvæmd af sérfræðingum Orkustofnunar Noregs sem sinnir sömu eftirlitsskyldu með sérleyfisstarfsemi á raforkumarkaði þar í landi. Úttektin er byggð á viðtölum við flutningsfyrirtæki, dreififyrirtæki, Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið og starfsemin borin saman við það hvernig henni er háttað annars staðar.

Meginniðurstaða norsku sérfræðinganna var að þó að margt sé vel gert varðandi raforkueftirlit hér á landi sé nauðsynlegt að efla eftirlitið svo það geti sinnt skyldum sínum lögum samkvæmt. Í kjölfar þessarar úttektar fól iðnaðarráðuneytið Orkustofnun að gera tillögur að úrbótum á raforkueftirlitinu og eru tillögur stofnunarinnar birtar í skýrslu sem fylgir með frumvarpinu. Vegna skorts á mannafla hefur raforkueftirlitið hingað til einskorðast að miklu leyti við eftirlit með bókhaldi fyrirtækjanna og innköllun gagna. Raforkueftirlitið hefur ekki haft burði til þess að fara í kerfisbundnar heimsóknir og framkvæma úttektir á öllum rekstrarþáttum fyrirtækjanna. Til þess að gera raforkueftirlitið virkara þarf að byggja upp aðferðafræði og endurbæta verkferla. Auka þarf frumkvæði eftirlitsins með reglubundnum úttektum á rekstri fyrirtækjanna. Auk þess þarf að byggja upp þekkingu starfsmanna til að þeir verði færari til að sinna verkefnunum.

Mat Orkustofnunar og norsku orkustofnunarinnar er að til þess að standa undir fullnægjandi eftirliti þurfi að fjölga starfsmönnum úr tveimur í fjóra. Mæta þarf útgjöldum vegna virkara raforkueftirlits og utanaðkomandi vinnu sérfróðra aðila sem búið var að festa í lögin frá því í vor sem ég nefndi áðan. Tekjur af raforkueftirlitinu á árinu 2010 námu 48,5 millj. kr. Kostnaðaráætlun vegna reksturs og raforkueftirlits á árinu 2012 gerir ráð fyrir rekstrarkostnaði að upphæð 98,2 millj. kr. Því þarf að auka tekjur raforkueftirlitsins um 50 milljónir svo það standi undir sér.

Til að setja þessar upphæðir í samhengi er það svo að tekjumörk fyrirtækjanna sem eftirlit er haft með nema 25,5 milljörðum kr. á ári. Núverandi gjald er 0,2% af þessari veltu en farið er fram á að gjaldið fari í 0,4%. Raforkugjald fer eftir raforkunotkun og ef gjaldinu er velt út í gjaldskrá sérleyfisfyrirtækjanna er það hlutfallslega mest borið af þeim sem kaupa stærstan hluta raforkunnar hér á landi. Notkun stórnotenda nemur 13,2 teravattstundum, þ.e. 77% af heildarraforkunotkuninni, og mundu þeir þá bera ríflega helming hækkunarinnar, 26 millj. kr. Afgangurinn skiptist milli fyrirtækja og heimila og hækkun eftirlitsgjaldsins mun sem sagt ekki leggjast þungt á heimili landsins en fyrir meðalársnotkun heimilisins, sem telst vera 4.500 kílóvattstundir, verður hækkunin um 30 kr. á ári. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Hvað almenna notendur raforku varðar ákvarðast um 60% af endanlegu raforkuverði af gjaldskrá fyrir dreifingu og flutning. Því skiptir mjög miklu máli fyrir neytendur og fyrir heimilin í landinu að eftirlit með þessari sérleyfisstarfsemi á raforkumarkaði sé öflugt og tryggi hag neytenda. Þær hækkanir á raforkueftirlitsgjaldi sem hér eru lagðar til eru óverulegar í samanburði við hagsmuni neytenda með réttri verðlagningu fyrir sérleyfisstarfsemina. Virkt eftirlit gerir kröfu um hagræðingu hjá raforkufyrirtækjum og með því uppskera neytendur lægra verð. Eftirlitsgjaldið er lág upphæð í samhengi við þann ávinning sem líklega er meiri en gjaldið. Þá er með þeim lagabreytingum sem Alþingi samþykkti í vor lögð ríkari áhersla á gæði og afhendingaröryggi raforku og er raforkueftirliti Orkustofnunar falið að tryggja að svo verði.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. atvinnuveganefndar.