140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég deili áhyggjum Íslenskrar málnefndar á minnkandi bóklestri og dvínandi lesskilningi barna og unglinga. Í námi mínu í bókmenntafræði lagði ég sérstaka áherslu á barnabókmenntir, greiningu þeirra og hlutverk. Á þeim tíma hafði engin íslensk barnabók hlotið tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, hvað þá hlotið þau. Barnabækur mættu afgangi og höfundar þeirra voru vart taldir alvöruhöfundar.

Mikið hefur áunnist í því að auka virðingu fyrir barnabókum, en mér finnst vanta nokkuð upp á skilning manna á því hvernig best sé að kenna lestur svo börn og unglingar læri virkilega að njóta lestursins. Lausnin er þó kannski einfaldari en marga grunar. Við þurfum að leyfa þeim að lesa eitthvað sem þau vilja lesa, sem þau hafa áhuga á.

Sem foreldri hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þann bókakost sem krakkarnir mínir hafa komið með heim úr skólanum þegar þau hafa verið að æfa sig í lestri. Sumt hefur hreinlega verið óbærilega leiðinlegt, svo það sé sagt.

Ég hef stundum haldið því fram að íslenskur bókamarkaður sé áttunda undur veraldar. Hann er smár, fáir tala tungumál okkar, hann er mjög lítið styrktur af hinu opinbera miðað við til dæmis Norðurlöndin, en mikið er gefið út af góðum og áhugaverðum barnabókum á íslensku. Ég held að það mundi bæði styrkja lestur og lesskilning barna sem og barnabókaútgáfu, sem er nauðsynleg, að gefa skólunum í auknum mæli tækifæri til þess að uppfæra bókakostinn með því að leita til þeirrar blómlegu bókaútgáfu sem hér er.